„Mér blöskrar þetta framferði“

Snæbjörn Brynjarsson.
Snæbjörn Brynjarsson. Skjáskot/Alþingi

„Lesi maður blöðin eða veffjölmiðla í dag sér maður að fjórir þingmenn séu að stefna öryrkja,“ sagði Píratinn Snæbjörn Brynjarsson undir liðnum störf þingsins á Alþingi. Ræddi hann þar um ákvörðun þingmanna Miðflokksins að senda Báru Halldórsdóttur bréf þar sem hún er boðuð til þinghalds í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Bára var stödd á Klaustri bar 20. nóv­em­ber síðastliðinn þegar hún varð nokk­urra þing­manna vör sem fóru ill­um orðum um kon­ur, fatlaða og sam­kyn­hneigða. Hún tók sam­töl þing­mann­anna upp og sendi fjöl­miðlum nokkru síðar.

„Fjórir þingmenn ætla að stefna öryrkja og vilja miskabætur eða einhverja refsingu,“ sagði Snæbjörn og bætti við að hann væri kominn í púlt Alþingis til að lýsa yfir hneykslan sinni á því.

„Mér blöskrar þetta framferði. Mér blöskrar að fólk sem er með margfaldar tekjur á við þennan einstakling hópist saman gegn þessari einu manneskju og krefjist refsingar,“ sagði Snæbjörn.

Hann sagði að þingmenn Miðflokksins hefðu hvorki manndóm né kjark til að biðjast afsökunar á hegðun sinni og hefðu ekki sagt af sér. „Mér finnst ótrúlegt að hugsa til þess að þeim hafi dottið í hug að stefna þessari manneskju. Þeir ættu frekar að þakka henni fyrir að hafa kennt sér mikilvæga lífslexíu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert