Koma þurfi deilunni í annan farveg

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/​Hari

„Ég hef nú þegar gert það,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við mbl.is spurð hvort samningsumboð félagsins vegna kjaraviðræðna hafi verið formlega afturkallað frá Starfsgreinasambandinu í samræmi við ákvörðun félagsins í gær. Fundurinn veitti einnig heimild til þess að vísa kjaradeilunni til embættis ríkissáttasemjara. Sólveig segir aðspurð að næsta skref sé að taka ákvörðun um það á hvaða tímapunkti það verði gert.

Spurð hvers vegna Efling telur ástæðu til þess að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara segir Sólveig það einfaldlega mat félagsins að of langt sé á milli deiluaðila og að of lítið sé að gerast í þeim viðræðum sem verið hafi í gangi til þessa. Þörf sé á því fyrir vikið að setja málið í annan farveg. Það sé einfaldlega mat Eflingar að komið sé á þann tímapunkt.

„Þegar kemur að viðræðunum við Samtök atvinnulífsins þá hefur vissulega vinna átt sér stað í undirhópum sem snýr að einstökum köflum. Sú vinna hefur gengið ágætlega á mörgum stöðum en þegar kemur að samtölum sem átt hafa sér stað á milli viðræðunefndarinnar og SA þá erum við eiginlega bara á nákvæmlega sama stað og við vorum á í upphafi.“

Varðandi stjórnvöld þá sé Efling að leggja lokahönd á hugmyndir félagsins í skattamálum sem vonir standi til að Alþýðusamband Íslands (ASÍ) geti sameinast um að fara fram með saman. Verið sé að vinna að húsnæðismálunum á vettvangi ASÍ. Segist hún binda miklu meiri vonir við þá vinnu eins og staðan sé í dag en einhver útspil frá stjórnvöldum.

„Forsendur samtalsins og samningaviðræðnanna eru einhvern veginn ekki þær sömu sitt hvoru megin við borðið. Þess vegna tel ég að það ætti að vera augljóst öllum sem koma að málinu að þetta þurfi að fara í annan farveg,“ segir Sólveig. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert