Segir tíma til greiðslu of nauman

Frá Vaðlaheiðargöngum.
Frá Vaðlaheiðargöngum. mbl.is/Þorgeir

Neytendasamtökin telja skilmála um greiðslu í Vaðlaheiðargöng ósanngjarna og andstæða góðum viðskiptavenjum. Kostnaður hækkar um 67%, sé ekki greitt innan þriggja klukkustunda frá því ekið er um göngin, eða úr 1.500 kr. í 2.500 kr. og fer þá greiðsluseðill í heimabanka umráðamanns ökutækisins.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að þetta geti verið bagalegt fyrir þá sem ekki eigi snjallsíma. Samkvæmt hans upplýsingum eru það um 25% landsmanna.

Skjáskot/veggjald.is

„Þeir þurfa þá væntanlega að komast í heimatölvu,“ segir Breki og bendir á að tíminn sem gefinn er til greiðslu sé það naumur að sé ekið í gegnum göngin er aukagjaldið fallið á áður en komið er til Egilsstaða, nú eða Reykjavíkur sé ekið í hina áttina.

Vænta svars á morgun

„Við viljum að tíminn sé rýmkaður í tíu daga,“ segir Breki. Neytendasamtökin hafa sent forsvarsmönnum Vaðlaheiðarganga erindi þar sem þess er krafist og vænta svars á morgun. 

Hilmar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga, sagði í samtali við RÚV að honum hugnist ekki vel að lengja greiðslufrestinn vegna þess að það myndi skapa erfiðleika fyrir bílaleigur.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ótækt að forsvarsmenn ganganna og bílaleigur komi sér ekki saman um einhverja leið. Þeir hljóta að geta fundið leið sem bitnar ekki á neytendum,“ segir Breki.

Vill að sjálfsafgreiðslukassar verði settir upp

Hann vill auk þess sjá að hægt sé að greiða á fleiri stöðum en á vefsíðu ganganna, www.veggjald.is.

„Auðvitað á að vera möguleiki fyrir þá sem aka þarna um að geta greitt á staðnum,“ segir Breki. Að hans mati ættu að vera tveir sjálfsafgreiðslukassar við göngin, einn hvoru megin.

„Það er ótækt að setja alla ábyrgð á greiðslunni á tækni sem ekki allir búa yfir og sem allir eru ekki klárir á að vinna með. Við væntum þess að þetta séu bara byrjunarörðugleikar og vonum að þeir virði góða viðskiptahætti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert