Metur skilyrði fyrir endurupptöku

Sveinn Andri Sveinsson lögfræðingur vonar að Hæstiréttur horfi til dómafordæmis …
Sveinn Andri Sveinsson lögfræðingur vonar að Hæstiréttur horfi til dómafordæmis Hæstaréttar Svíþjóðar varðandi „shaken baby“ heilkennið svonefnda. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég neita að trúa öðru en Hæstiréttur Íslands taki sér nú Hæstarétt Svíþjóðar til fyrirmyndar og kafi nú ofan í þessa hugmynd sem „shaken baby“ heilkennið er,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sig­urðar Guðmunds­son­ar sem dæmd­ur var fyr­ir að hafa valdið dauða ung­barns á dag­gæslu í Kópa­vogi árið 2001.

Munnleg málsmeðferð var í Hæstarétti í morgun um hvort endurupptaka málsins fáist heimiluð.

Endurupptökunefnd samþykkti árið 2015 beiðni Sig­urðar um end­urupp­töku 18 mánaða dóms sem hann hlaut í Hæsta­rétti í apríl 2003 fyrir að eiga að hafa verið valdur dauða níu mánaða barns með því að hrista það. Byggði nefndin ákvörðun sína á niður­stöðu dóm­kvadds mats­manns, dr. Waney Squier, og um­sögn rétt­ar­meina­fræðings­ins Þóru Stef­fen­sen sem krufði barnið á sín­um tíma. Ríkissaksóknari hefur dregið þá niðurstöðu í efa.

Sveinn Andri segir lítið hafa gerst í málinu frá 2015, utan að ríkissaksóknari hafi á þeim tíma aflað nýrrar matsgerðar. Ekkert hafi hins vegar komið fram sem breyti stöðu málsins.

„Ríkissaksóknari  krafðist frávísunnar á þeim forsendum annars vegar að endurupptökunefndin hefði ógilt dóm Hæstaréttar, sem nefndinni væri ekki heimilt og hins vegar að ekki hefðu verið lagaskilyrði til staðar til að fallast á endurupptökuna,“ segir hann.

„Það sem Hæstiréttur metur núna er hvort að lögmæt skilyrði hafi verið til staðar hjá endurupptökunefnd fyrir að samþykkja endurupptöku,“ bætir hann við. Vísi Hæstiréttur málinu nú frá þá er því lokið, en annars mun það koma til efnislegrar meðferðar síðar.

Spurður hvort að Sigurður sé ekki orðinn langþreyttur eftir niðurstöðu, játar Sveinn Andri því. „Hjól réttvísinnar þau snúast ekkert ofsalega hratt stundum,“ segir hann og kveður ekki vitað hversu langan tíma dómarar muni nú taka sér til að úrskurða um frávísunarkröfuna.

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á útkomuna segist Sveinn Andri neita að trúa öðru en Hæstiréttur Íslands taki sér hæstarétt Svíþjóðar til fyrirmyndar í þessu máli, en Hæstiréttur Svíþjóðar hefur þegar hafnað hugmyndum um „shaken baby“ heilkennið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert