Listaverk verða ekki til án kostnaðar

Tölvuteikning

„Það er fagnaðarefni að Reykjavíkurborg ætli að reisa nýtt og glæsilegt útilistaverk í Vogabyggð í austurhluta borgarinnar,“ segir í yfirlýsingu frá Sambandi íslenskra myndlistarmanna sem undirrituð er af formanni sambandsins, Önnu Eyjólfsdóttur, en tilefnið eru hugmyndir um að koma fyrir pálmatrjám í sérstökum gróðurhúsum í hverfinu.

„Reykjavíkurborg hefur unnið að því að færa listina til fólksins, foráðamenn borgarinnar hafa lýst því yfir að útilistaverk eigi ekki eingöngu að vera í miðborginni heldur einnig í öðrum hverfum í nærumhverfi íbúa þeirra. Það þykja sjálfsögð mannréttindi hjá menningarþjóðum að hafa myndlist aðgengilega í almannarými,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.

Þar segir enn fremur að það liggur í hlutarins eðli að að mikil listaverk verði ekki til án kostnaðar. „Hugmyndir sem verða að stórkostlegum listaverkum eru menningarverðmæti, þau verða hluti af menningararfi okkar í framtíðinni, með gerð nýrra listaverka er verið að leggja inn í þann sjóð. Íslendingar hafa átt því láni að fagna að fá hingað þekkta erlenda myndlistarmenn, sem hafa gert stór útilistaverk í borgarlandinu, verk sem vekja ómælda athygli og draga að erlenda gesti.“

Staðið hafi verið vel að samkeppni um listaverk í Vogabyggð. Dómnefndin hafi verið skipuð fagmenntuðu fólki en átt erfitt verk fyrir höndum þar sem tillögurnar hafi allar verið spennandi og hver annarri veglegri.

„Verðlaunatillagan kemur til með að setja fallegan svip á umhverfi sitt, hún er nýstárleg og glæsileg viðbót við þau útilistaverk sem nú þegar prýða borgina. Vanda þarf til verka við gerð útilistaverka í almannarými, það liggur í hlutarins eðli að vönduð vinna kostar, ekki síst þegar um svo fágaða vinnu er að ræða sem gerð listaverka er, þar verður ekki kastað til höndum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert