Meirihlutinn sakaður um valdníðslu

Fulltrúar minnihlutaflokka í borgarstjórn Reykjavíkur eru gríðarlega óánægðir með afgreiðslu …
Fulltrúar minnihlutaflokka í borgarstjórn Reykjavíkur eru gríðarlega óánægðir með afgreiðslu meirihlutans á tillögu þeirra í gær. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hljóðið er þungt í fulltrúum þriggja flokka sem eru í minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, eftir borgarstjórnarfund gærdagsins, þar sem lengi var rætt um tillögu Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokks fólksins varðandi það að vísa „ákvörðunum og athöfnum“ borgarinnar varðandi „skilaboðasendingar til tiltekinna kjósendahópa“ fyrir borgarstjórnarkosningarnar síðasta vor til sveitarstjórnarráðuneytisins til frekari skoðunar.

Meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Vinstri grænna og Pírata lagði fram breytingartillögu við tillöguna, sem var samþykkt eftir langar umræður, en hún er svohljóðandi:

Borgarstjórn samþykkir að farið verði í samstarf við sveitarstjórnarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem farið verður yfir reynslu af verkefnum undanfarinna kosninga til að efla kosningaþátttöku, m.a. í ljósi ákvörðunar Persónuverndar. Markmiðið með samstarfinu er að leggja línur til framtíðar í samráði við viðkomandi stofnanir, ráðuneyti og frjáls félagasamtök og gera tillögur um með hvaða hætti er fært að hvetja til þátttöku í kosningum.“

Fulltrúar minnihlutaflokkanna gengu úr fundarsal á meðan breytingartillagan var tekin til afgreiðslu i gærkvöldi, mjög ósáttir. Breytingartillagan var því samþykkt mótatkvæðalaust.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, segir í samtali við mbl.is að með þeim breytingum sem meirihlutinn gerði á tillögunni sé í raun ekki um sömu tillögu að ræða og flokkarnir þrír komu með fyrir borgarstjórn. Hann segir að það hefði verið heiðarlegra af meirihlutanum að hafna einfaldlega tillögunni og koma svo með sína eigin tillögu um málið.

Hann segir talið um að markmiðið með samþykktri tillögu sé að „leggja línur til framtíðar“ um aðgerðir til að auka kosningaþátttöku, vera það sem minnihlutinn sé ósáttur með. Tillaga minnihlutans hafi snúist um að skoða hvað fór úrskeiðis fyrir kosningarnar, en ekki um framtíðina.

„Þetta gekk bara út á það að fara yfir hvað gerðist í aðdraganda kosninga, ekki það að fara í hvað væri hægt að gera betur næst. Heldur hvað það var sem gerðist fyrir kosningar. Hvernig gátu lög verið brotin og hvernig gátu fyrirmæli verið hundsuð?“ segir Eyþór.

„Þetta er eina sveitarfélagið sem braut lög í aðdraganda kosninganna, það eru yfir 70 sveitarfélög, og eina sveitarfélagið sem fór í sjálfstæðar æfingar, aðrir studdu sjálfstæð félagasamtök.“

Algjör óþarfi að vera með upphlaup

„Mér finnst þetta bara svona klassísk breytingartillaga. Við viljum fara í samtal vil sveitarstjórnarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga og það hvernig þessum málum verður háttað í framtíðinni. Við lítum þennan úrskurð mjög alvarlega og tökum hann bara til okkar. Við erum alvön því að koma með breytingartillögur í borgarstjórn, sama hvaða flokkar það eru,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, spurð um það hvort henni þyki samþykkt tillaga vera annars eðlis en sú sem upphaflega var borin fram.

„Þau höfðu öll tækifæri til þess að koma með móttillögu og þau gerðu það ekki. Það er algjör óþarfi að vera með eitthvert upphlaup í borgarstjórn, það er alvanalegt að koma með breytingartillögur, það er alvanalegt að tala saman og koma þá með mótbreytingartillögur, en það var ekki gert. Mér finnst nú aðalmálið snúast um það að við skoðum málið vel, áttum okkur á því hvað þetta þýðir í stað fyrir að vera að rífast um það í borgarstjórn daginn út og daginn inn. Þetta snýst um hvaða viðbrögð við höfum,“ segir Þórdís Lóa.

 „Brútal aðferðum“ beitt að sögn Kolbrúnar

„Með brútal aðferðum kom meirihlutinn með breytingatillögu, allt annars eðlis sem þurrkaði út okkar tillögu. Við gengum úr sal enda ekki margt sem hægt er að grípa til þegar manni er svona misboðið,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, leiðtogi Flokks fólksins í Reykjavík.

Hún segir ótta borgarstjórnarmeirihlutans mikinn og að allt sé „gert til að fela þó það sem Persónuvernd hefur staðfest með ákvörðun sinni“. Kolbrún segir í samtali við blaðamann að meirihlutinn hafi slengt fram breytingartillögu á lokametrum langrar átakaumræðu og að tillaga þeirra sé „bara annars eðlis“ en sú tillaga sem minnihlutaflokkarnir þrír komu með og hafði verið rætt um.

„Ég varð eiginlega bara fyrir taugaáfalli þarna. Ég ætlaði ekki að trúa því að þau ætluðu að leyfa sér að gera þetta,“ segir Kolbrún.

Vigdís Hauksdóttir oddviti Miðflokksins tekur í sama streng, en hún hefur einmitt kært framkvæmd borgarstjórnarkosninganna í vor til sýslumanns. „Lýðræðið víkur alltaf í valdatafli borgarstjórans í Reykjavík og meirihlutans sem virðist tilbúinn að verja hvaða vitleysu og hneyksli sem er,“ skrifaði Vigdís á Facebook-síðu sína í gærkvöldi.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert