Greiða atkvæði með verkfallinu

Fjöldi fólks lagði leið sína að kosningabíl Eflingar þegar hann …
Fjöldi fólks lagði leið sína að kosningabíl Eflingar þegar hann renndi í hlað í Þórunnartúni. mbl.is/​Hari

„Ég er spennt og mér finnst gott að við gerum eitthvað því launin eru ekki eins og þau ættu að vera,“ sagði Maria Rahko, þerna á Fosshóteli Reykjavík og félagsmaður í Eflingu, rétt áður en hún greiddi atkvæði sitt vegna verkfalls 8. mars.

Atkvæðagreiðsla Eflingar vegna verkfalls hótelstarfsfólks sem sinnir þrifum og hreingerningu hófst kl. 10 í morgun og var fyrsta stopp kosningabíls Eflingar í Þórunnartúni þar sem Fosshótel Reykjavík og Storm Hotel standa hvort sínu megin við götuna.

„Margir vina minna hafa ekki efni á að búa í almennilegu húsnæði í Reykjavík,“ sagði Maria. Hún sagðist að sjálfsögðu kjósa með verkfallinu.

Maria Rahko greiðir atkvæði með verkfallinu.
Maria Rahko greiðir atkvæði með verkfallinu. mbl.is/​Hari

Fjöldi fólks lagði leið sína að kosningabílnum þegar hann renndi í hlað rétt rúmlega 10 þrátt fyrir leiðindaveður, rigningu og rok. Mbl.is tók fimm af þeim fyrstu sem greiddu atkvæði tali. Öll ætluðu þau að greiða atkvæði með verkfallinu.

Meðal þeirra var yfirmaður þerna á Fosshóteli Reykjavík. „Aðgerðirnar leggjast vel í mig og ég er ánægð að Efling hafi lagt í þetta.“

Starfið ekki það auðveldasta

„Vinnuumhverfið er mjög gott og ég er mjög ánægð með yfirmenn mína. Það eina sem vantar upp á eru almennileg laun,“ sagði kona að nafni Evelina, þerna á Fosshóteli Reykjavík. „Ég kaus með verkfallinu og er mjög spennt.“

Karlmaður sem starfar við hreingerningar á Fosshóteli Reykjavík sagði eðlilegt að starfsfólkið krefðist hærri launa. „Starfið er ekki það auðveldasta, stundum er það mjög erfitt og við komum uppgefin heim til okkar eftir vinnudaginn.“

Sólveig Anna: Góð byrjun á aðgerðum

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var viðstödd í Þórunnartúni og hyggst fylgja kosningabílnum í dag og næstu daga. „Þetta leggst mjög vel í mig,“ sagði Sólveig Anna þegar blaðamaður tók hana tali. „Hér er fullt af fólki mætt til að greiða atkvæði þrátt fyrir veðrið og þrátt fyrir að það sé ekki á vakt.“

„Mér finnst þetta góð byrjun á aðgerðum. Það eina sem vantar er kaffi og kakó fyrir þá sem greiða atkvæði en við ætlum að redda því eftir hádegi.“

Sólveig Anna heilsar félagsmönnum.
Sólveig Anna heilsar félagsmönnum. mbl.is/​Hari

Atkvæðagreiðslan stendur fram á fimmtudagskvöld og verði aðgerðin samþykkt mun stafsfólkið leggja niður störf kl. 10 hinn 8. mars, á alþjóðlegum degi kvenna. Meirihluti starfsfólks sem leggja mun niður störf eru konur.

Atkvæðagreiðsla í fullum gangi.
Atkvæðagreiðsla í fullum gangi. mbl.is/​Hari

Allt að 1.000 gætu lagt niður störf á þessum degi, en kjörgengir í dag eru hátt í 8.000.

Félagsmenn geta kosið rafrænt, en til þess að tryggja sem besta þátttöku verður kosningabíll Eflingar á ferðinni í næstu daga og keyrir á milli hótela.

Kosningabíll Eflingar verður á ferðinni næstu daga.
Kosningabíll Eflingar verður á ferðinni næstu daga. mbl.is/​Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert