Allt að 1.000 leggi niður störf 8. mars

Höfuðstöðvar Eflingar í Guðrúnartúni. Þar er fundað um helgina um …
Höfuðstöðvar Eflingar í Guðrúnartúni. Þar er fundað um helgina um fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir. Kosningar hefjast á morgun. Allt að 1.000 geta farið í verkfall. Morgunblaðið/Eggert

Svo getur farið, að allt að 1.000 félagsmenn Eflingar hætti að vinna í boðuðum verkfallsaðgerðum í ferðaþjónustunni 8. mars. Innan félagsins eru um 1.700 manns sem starfa á hótelum en verkfallið mun aðeins taka til þeirra sem fást við hvers kyns þrif og hreingerningar.

Kosning hefst á mánudaginn meðal hátt í 8.000 kjörgengra félagsmanna í félaginu. Hún stendur yfir í þrjá og hálfan sólarhring, til fimmtudags, kl. 22. Ef meirihluti atkvæða þar er jákvæður, verður gengið til verkfalls.

Kosningin er bindandi og tekur mið af vilja allra félagsmanna, en ekki aðeins þeirra sem koma til með að stöðva vinnu. Svo er óheimilt samkvæmt lögum Eflingar að ganga úr Eflingu eða að hlíta ekki vilja meirihlutans ef svo ber undir. Það þýðir að ef kosið verður að ganga til verkfalls, verður einfaldlega gengið til verkfalls.

„Láglaunastefnan kostar“

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir, inntur eftir viðbrögðum við orðum Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, um að verkfallsaðgerðir þessar séu aðeins hugsaðar til þess að valda sem mestu tjóni á sem skemmstum tíma: „Láglaunastefnan kostar.“

Hann blæs á þessar fullyrðingar Jóhannesar. „Það er alrangt hjá honum,“ segir Viðar.

Hann segir þetta öðru fremur gert á grundvelli þess að ferðaþjónustan sé sá geiri á Íslandi þar sem „láglaunastefnan er rekin hvað harðast“. Þar vinni fólk á lægstu töxtum og að ferðaþjónustan sé sá geiri þar sem kjarasamningabrot séu einna algengust, segir Viðar.

„Það spilar frekar inn í þetta í hversu miklum ólestri réttindamál eru hjá ferðaþjónustunni. Ekki síst þess vegna er mikill vilji hjá fólkinu þar til að ráðast í aðgerðir,“ segir Viðar.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri hjá Eflingu.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri hjá Eflingu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert