Fyrirvarinn ekki í yfirlýsingunni

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

„Fyrirvarinn byggist á því að við erum ekki tengd raforkumarkaði ESB og það myndi eingöngu gerast ef sæstrengur yrði lagður,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á Alþingi í dag í umræðum um þriðja orkupakka Evrópusambandsins.

Til stendur að fyrsta umræða um þriðja orkupakkann fari fram á Alþingi síðar í dag en greint var frá því á dögunum að Guðlaugur Þór og Miguel Arias Canete, framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hefðu sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að stór hluti ákvæða þriðju orkupakkans hefði ekki gildi eða neina raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar.

„Svokölluð pólitísk yfirlýsing“

Tilefni ummæla Guðlaugs Þórs var fyrirspurn frá Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, sem spurði út í yfirlýsinguna og hvers eðlis hún væri og hvaða fyrirvarar fælust í henni. Sagði ráðherrann að yfirlýsing þeirra Canete væri „svokölluð pólitísk yfirlýsing“ sem hann teldi gagnlega í umræðunni. „Hún er hvorki meira né minna en það. Því hefur aldrei verið haldið fram á neinu stigi máls að hún sé neitt annað en nákvæmlega það.“

Inga Sæland sagði að þar með væri það komið á hreint „að þetta var óformlegt samtal sem felur í rauninni ekki í sér neinn fyrirvara, faktískt. Það er í rauninni enginn fyrirvari sem við höfum í hendi. Ekki neinn.“ Guðlaugur Þór sagði Ingu hafa misskilið eitthvað ef hún teldi að þeir fyrirvarar sem lagt hefði verið upp með fælust í umræddri yfirlýsingu. „Það hefur aldrei verið sagt.“ Með yfirlýsingunni væri aðeins áréttað það sem þegar fælist í lagagerðunum.

Gagnrýndi afskipti Norðmanna

„Það sem verið er að gera í meðförum þingsins,“ sagði Guðlaugur Þór, „ef áætlanir ná fram að ganga, er að herða á því að það sé ekki gert nema Alþingi komi að slíkri ákvörðun. Þannig væri ekki verið að gera neinar breytingar á umræddum lagagerðum frá Evrópusambandinu heldur einfaldlega að árétta efni þeirra.

Ráðherrann notaði ennfremur tækifærið og gagnrýndi norska stjórnmálamenn og fulltrúa norskra samtaka sem komið hefðu hingað til lands til þess að taka þátt í umræðunni um þriðja orkupakkann og sakaði þessa aðila um afskipti af íslenskum stjórnmálum og að etja fram fullyrðingar sem stæðust enga skoðun.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert