Kemur svifrykið af Landeyjasandi?

Gervihnattamynd af upptakasvæði sandfoks á Landeyjasandi. SENTINEL-2 litmynd frá COPERNICUS-áætlun …
Gervihnattamynd af upptakasvæði sandfoks á Landeyjasandi. SENTINEL-2 litmynd frá COPERNICUS-áætlun EU og ESA. Ljósmynd/Eldfjallafræði- og náttúrvárhópur Háskóla Íslands

Svifrykið sem hefur verið áberandi á höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga á sér, að hluta til að minnsta kosti, upptök á Landeyjasandi. Á Facebook-síðu eldfjallafræði- og náttúruvárhóps Háskóla Íslands voru í dag birtar gervihnattamyndir sem sýna vel upptakasvæði sandfoks á Landeyjasandi.

Gervihnattamyndin sýnir líka skýrt að sandfok á sér ekki stað á uppgræddu svæðunum á þessum slóðum. „Við höfum séð þetta líka þegar það hefur verið norðanátt,“ segir Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í jarðvísindadeild Háskóla Íslands í samtali við mbl.is. „Þá er strókur austan og vestan við Landeyjahöfn, en það kemur eyða á því svæði þar sem uppgræðslan er.“

Hún segir sandfokið auðveldlega berast langar leiðir og að mistrið sem lá yfir höfuðborgarsvæðinu í gær hafi að hluta til komið af Landeyjasandi. „Þetta er þekkt upptakasvæði,“ segir Ingibjörg og bætir við að sandrokið sé fíngert efni sem geti blásið um langan veg.

„Þetta er auðvitað bara náttúrulegt efni sem árnar hafa verið að bera fram.“  Þó að einnig sé um að ræða samspil milli þess hvernig sjórinn brýtur á ströndinni, sé aðallega um að ræða efni sem jökulárnar bera fram.

Spurð hvort meiri landgræðsla sé svarið við þessu svifryki, segir hún ekki auðvelt að sigrast á því af því að árnar breyti farvegi sínum. „Ég held að það væri seint hægt að koma alveg í veg fyrir þetta,“ segir Ingibjörg og bendir á að líkt og myndin sýni þá fjúki ekki úr sandinum á þeim svæðum þar sem hann er blautur.

Veður­fræðing­ur­inn Ein­ar Svein­björns­son varp­aði fram þeirri spurn­ingu á Face­book-síðu sinni um helgina hvort upp­runi svifryks­ins í Reykja­vík sé mögu­lega ein­hver ann­ar en bílaum­ferðin.

Kvaðst Ein­ar því næst að óat­huguðu máli telja að upp­runi svifryks­ins að þessu sinni væri „frek­ar mór af Eld­hrauni á Síðu, þurr leir­inn frá síðasta Skaft­ár­hlaupi, frek­ar en fín­efni af Skeiðar­ársandi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert