Varaði við „erlendri einangrunarhyggju“

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er þess fullviss að unga fólkið er jafnsannfært og ég um mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu. Nú þegar angar erlendrar einangrunarstefnu teygja anga sína inn í íslensk stjórnmál er nauðsynlegt að slá skjaldborg um þá samvinnu.“

Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í ávarpi á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um alþjóðlega samvinnu sem fram fór í Norræna húsinu í gær. Vísaði hann þar til umræðunnar um þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem til stendur að samþykkja hér á landi vegna aðildar Íslands að EES-samningnum, en ráðherrann hefur meðal annars haldið því fram að andstaða hér á landi við málið sé meðal annars runnin undan rifjum norska Miðflokksins.

„Ég hef áður rætt um EES-kynslóðina, unga fólkið sem man ekki eftir sér öðruvísi en innan Evrópska efnahagssvæðisins,“ sagði Guðlaugur Þór enn fremur þar sem hann skírskotaði til unga fólksins og bætti við að honum virtist „meirihluti þings og þjóðar ætla að standa saman gegn öflum sem vilja grafa undan EES-samningnum á því sem eru í besta falli illa ígrundaðar forsendur – ef ekki af hreinum ásetningi.“

Þeir sem lagst hafa gegn samþykkt þriðja orkupakkans hafa hvatt til þess að Ísland nýtti heimild í EES-samningnum til þess að aflétta ekki stjórnskipulegum fyrirvara af löggjöfinni sem þýddi að málið færi aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem hægt yrði að óska eftir formlegum undanþágum frá löggjöfinni eða þeim hlutum hennar sem taldir eru fela í sér framsal á valdi. Stuðningsmenn þess að orkupakkinn verði samþykktur hafa hins vegar sagt að nýting heimildarinnar gæti sett EES-samninginn í uppnám.

Guðlaugur Þór sagði mikilvægt að hafa hugfast að EES-samningurinn hefði skilað almenningi og fyrirtækjum „gríðarlegum ávinningi án þess að Ísland hafi þurft að fórna sínum hagsmunum svo nokkru nemi“. Alþjóðleg samvinna og virk hagsmunagæsla væri undirstaða þess að lífskjör og tækifæri hérlendis gætu áfram orðið með því sem best gerðist í heiminum. Þar væri EES-samstarfið í lykilhlutverki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert