Vald verði ekki framselt

Laugavatn í Bláskógabyggð.
Laugavatn í Bláskógabyggð. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Brýnt er að tryggt sé að ekki felist afsal á valdi í samþykktum Alþingis vegna innleiðingarinnar og að hún feli ekki í sér töku ákvarðana sem hafa í för með sér hækkun á  raforkuverði,“ segir í umsögn Bláskógabyggðar til utanríkismálanefndar Alþingis vegna þingsályktunar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um samþykkt á þriðja orkupakka Evrópusambandsins vegna aðildar Íslands að EES-samningnum.

„Sveitarstjórn Bláskógabyggðar leggur mikla áherslu á að löggjafar-, ríkis- og dómsvald í orkumálum verði alfarið í höndum Íslendinga. Af hálfu Bláskógabyggðar er lögð rík áhersla á  að innlend orka verði notuð til innlendrar framleiðslu, en ekki flutt út sem hrávara,“ segir ennfremur þar sem vísað er til hugmynda um lagningu sæstrengs fyrir rafmagn til Evrópu.

„Sveitarstjórn bendir á að afar brýnt er að ljúka vinnslu heildstæðrar orkustefnu fyrir Ísland. Nauðsynlegt er að hafa gott samráð við sveitarfélögin í landinu við gerð stefnunnar. Orkumál eru afar mikilvægt byggðamál og nauðsynlegt að sveitarfélögin komi að borðinu við vinnslu stefnunnar, en þau eiga ekki fulltrúa í starfshópi um gerð orkustefnu sem skipaður var 2018.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert