Breytt afstaða ASÍ til ESB

Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.
Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breytt stefna Alþýðusambands Íslands gagnvart inngöngu Íslands í Evrópusambandið felst í andstöðu ASÍ við þriðja orkupakka sambandsins. Þetta segir Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og ráðgjafi Eflingar stéttarfélags, á vefsíðu sinni og vísar í því sambandi til umsagnar ASÍ um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um samþykkt þriðja orkupakka Evrópusambandsins vegna aðildar Íslands að EES-samningnum.

Stefán segir það sæta tíðindum að ASÍ hafi sent frá sér umsögn þar sem tekin sé eindregin afstaða gegn frekari markaðsvæðingu orkugeirans sem sé yfirlýst markmið Evrópusambandsins með innleiðingu orkupakka sinna. Fram kemur meðal annars í umsögninni að raforka sé grunnþjónusta og eigi ekki að mati ASÍ að vera háð markaðsforsendum hverju sinni líkt og gert sé ráð fyrir í orkupökkum Evrópusambandsins. Þvert á móti eigi raforka að vera á forræði almennings og ekki eigi að fara með hana eins og hverja aðra vöru á markaði.

Forysta ASÍ áður fylgjandi inngöngu í ESB

„Það er því mat ASÍ að of langt hafi verið gengið nú þegar í markaðsvæðingu grunnstoða og feigðarflan að staðfesta markaðsvæðinguna og ganga lengra í þá átt. Rafmagn er undirstaða tilveru okkar í dag og það er samfélagsleg ábyrgð að tryggja framleiðslu og flutning til allra, sú ábyrgð er of mikil til að markaðurinn fái að véla með hana enda hefur markaðsvæðing grunnstoða yfirleitt ekki bætt þjónustu, lækkað verð né bætt stöðu starfsfólks.“

Stefán bendir á að forysta ASÍ hafi áður verið eindregið fylgjandi inngöngu Íslands í Evrópusambandið. „Það hefði auðvitað þýtt fulla innleiðingu allra orkupakka sem frá ESB hafa komið og munu koma í framtíðinni. Þessi nýja yfirlýsing ASÍ gegn orkupökkunum endurspeglar þannig augljóslega stefnubreytingu í forystu ASÍ í málefnum er tengjast Evrópusambandinu. Ég tel að rökin sem standa að baki þessari afstöðu ASÍ séu bæði sterk og mikilvæg. Þessi yfirlýsing er því mikið fagnaðarefni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert