Hitamet slegin víða um land í apríl

Ferðamenn á ferð í miðborginni. Nýliðin aprílmánuður er hlýjasti apríl …
Ferðamenn á ferð í miðborginni. Nýliðin aprílmánuður er hlýjasti apríl frá upphafi mælinga í Reykjavík. mbl/Arnþór Birkisson

Óvenjulega hlýtt var á landinu öllu í apríl og var þetta hlýjasti aprílmánuður frá upphafi mælinga í Reykjavík, Stykkishólmi, Bolungarvík, Grímsey, á Akureyri og á Hveravöllum að því er fram kemur í frétt á vef Veðurstofu Íslands.

Meðalhiti í Reykjavík í aprílmánuði mældist 6,5 stig. Er það 3,6 stigum hærra en meðaltal áranna 1961 -1990 en 2,8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 6,9 stig, sem er 5,3 stigum hærra en meðaltal áranna 1961-1990 en 4,2 stigum fyrir ofan meðallag síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 5,8 stig og 6,0 stig á Höfn í Hornafirði.

Er mánuðurinn því hlýjasti aprílmánuður frá upphafi mælinga í Reykjavík, Stykkishólmi, Bolungarvík, Grímsey, á Akureyri og á Hveravöllum. Þegar horft var til landsins alls var mánuðurinn hins vegar sá næsthlýjasti, því hlýrra var í apríl 1974.

Óvenju hlýtt var engu síður á landinu öllu í apríl og voru hitamet slegin víða. Vikin voru mest á Norðurlandi en minni við suður- og austurströndina. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 4,5 stig við Mývatn en minnst 1,5 stig í Papey. Meðalhiti mánaðarins var þá hæstur, 7,2 stig við Sandfell í Öræfum en lægstur -1,2 stig á Gagnheiði. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, 2,6 stig.

Kort/Veðurstofa Íslands

Hitinn mestur á Þingvöllum en frostið mest á Setri

Mest frost í mánuðinum mældist -18,2 stig á Setri þ. 1. Mest frost í byggð mældist -15,5 stig í Möðrudal þ. 3.

Hæsti hiti mánaðarins mældist hins vegar á Þingvöllum og var hann 19,3 stig.

Þurrt var norðanlands á meðan úrkomusamara var sunnan til á landinu.

Í Reykjavík mældist úrkoma 81,4 mm og er það 40% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman aðeins 7,5 mm og er það 25% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Ekki hefur rignt jafn lítið á Akureyri í aprílmánuði frá því árið 2000. Úrkoma í Stykkishólmi mældist 45,7 mm og 161,2 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma í Reykjavík mældist 1,0 mm eða meiri voru 19, eða fimm fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri tveir dagar, sem er fjórum dögum færra en í meðalári.

Alhvítir dagar voru í Reykjavík í apríl voru þrír og er það jafnt meðallagi áranna 1971 til 2000. Aldrei varð hins vegar alhvítt á Akureyri í mánuðinum, en þar eru að jafnaði níu alhvítir dagar í apríl.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 116,4, sem er 23,7 stundum færri en í meðalári. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 168,5 og er það 38,8 stundum fleiri en í meðalári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert