„Við höfum komist að niðurstöðu“

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum hlustað. Við höfum kallað til sérfræðinga. Hlustað á álit. Við höfum komist að niðurstöðu. Hagsmunir Íslands eru tryggðir með fyrirvörum og aðgerðum sem eru skrifaðar eftir ráðgjöf helstu sérfræðinga og taka tillit til þeirra áhyggjuradda sem hafa verið uppi í samfélaginu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í grein á fréttavefnum Kjarnanum í dag um þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem til stendur að innleiða í gegnum EES-samninginn.

„Framsókn stendur vörð um hags­muni Íslendinga. Það höfum við áður gert í stórum málum og er þar skemmst að minnast baráttu flokksins gegn því að íslensku[r] almenningur tæki á sig skuldir einkabankanna með Icesave. Við stöndum vörð um hagsmuni heildarinnar. Ef það er ástæða til að setja EES-­samninginn í uppnám þá munu ábyrg stjórnvöld gera það. En þá aðeins að ástæða sé til. Aldrei eiga stjórnvöld að sýna af sér svo ábyrgðarlausa hegðun að fórna mikilvægasta milliríkjasamningi Íslendinga nema að ástæðan sé svo rík að slíkt verði ekki umflúið,“ segir Sigurður Ingi enn fremur í greininni.

Hættulegt að gera EES að óvini

„Enginn getur án samþykkis Alþingis og þess vegna íslensku þjóðarinnar lagt raforkusæstreng. Við gefum ekki eftir fullveldi okkar. Með fyrirvörum Alþingis, sem vísa bæði í yfirlýsingar utanríkisráðherra og orkumálastjóra ESB annars vegar og hins vegar yfirlýsingar sameiginlegu EES-nefndarinnar höfum við bæði pólitískar, þjóðréttarlegar og lagalegar yfirlýsingar, máli okkar til stuðning,“ segir ráðherrann og varar við gagnrýni á EES-samninginn sem hann segir að hafi tryggt lífsgæði Íslendinga á liðnum árum.

„Það er hættuleg braut að ætla að gera EES-samninginn að óvini. Það er hættuleg braut að næra umræðuna með tortryggni og ótta. Og ótta við hvað? Jú, við það samstarf sem við höfum átt við nágrannaþjóðir okkar í Evrópu. Ég er ekki með þessu að mæla ESB bót. Það er félagsskapur sem Ísland á að standa utan við. EES-samningurinn hefur hins vegar fært okkur Íslendingum mikil lífsgæði,“ segir Sigurður Ingi enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert