Met slegið í orkupakkaumræðunni

Þingfundurinn sem hófst í gær fimmtudaginn 23. maí er sá …
Þingfundurinn sem hófst í gær fimmtudaginn 23. maí er sá sem lengst hefur staðið fram á morgun næsta dags. mbl.is/Hari

Met var slegið á Alþingi nú í morgun fyrir þann þingfund sem staðið hefur lengst fram á morgun, en þingmenn Miðflokksins héldu þar áfram umræðu um þriðja orkupakkann þar til hlé var gert á þingfundi klukkan 9.04. Þingfundur hófst í gær klukkan 15.30. Orkupakkinn var fyrsta mál á dagskrá og hafði umræða um hann því staðið í tæpar 16 klukkustundir og eru enn fjórir þingmenn á mælendaskrá.

Fyrra met fyrir þann þingfund sem staðið hefur lengst fram á morguninn er ekki gamalt, eða frá miðvikudeginum í þessari viku en þá var gert hlé á umræðu klukkan 8.41 um morguninn. Þingfundurinn hafði þá staðið frá klukkan 13.30, eða í rúmar 19 klukkustundir.  

Metið sem slegið var á miðvikudag var hins vegar frá því 19. desember 1996 þegar fundi var slitið kl. 7.59 morguninn eftir. Fór sá næturfundur í að ræða öryggi raforkuvirkja og fleiri mál. Dæmi eru hins vegar um lengri fundi  á árum áður er Alþingi skiptist í efri og neðri deild, til dæmis um kvótafrumvarpið 1984.

Upphaflega stóð til að hafa nefndardaga á Alþingi, bæði í gær og í dag, en forseti Alþingis breytti dagskránni á miðvikudag til þess að umræður um þriðja orkupakkann gætu haldið áfram. Nefndarfundir eru þó enn á dagskrá frá klukkan 9.30, samkvæmt vef Alþingis.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert