„Á meðan bíðum við hin 54“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þegar þessi ríkisstjórn lagði af stað fyrir rúmu einu og hálfu ári voru óvissuteikn á lofti. Spennan í þjóðarbúskapnum dróst hraðar saman en spár gerðu ráð fyrir, óvissa ríkti á vinnumarkaði og svo raungerðist það sem margir höfðu spáð um langa hríð, að ein stærsta atvinnugreinin okkar, ferðaþjónustan, stendur nú frammi fyrir samdrætti.“

Þetta sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi. „Ísland stendur vel og þarf enginn að óttast það að við ráðum ekki við skammtímaáfall á borð við gjaldþrot flugfélags og loðnubrest.“

Sagði hún að í þetta skiptið væri Ísland reiðubúið undir kólnun, enda hafi landsmenn aukið þjóðhagslegan sparnað, skuldir verið greiddar niður og skynsamlegir kjarasamningar gerðir. „Ég er því full bjartsýni á að við náum farsælli lendingu.“

Þá sagðist Bjarkey hafa leyft sér að hlakka til að geta staðið í ræðustól og farið yfir fjölmörg góð mál sem muni koma sér vel fyrir Íslendinga, svo sem Heilbrigðisstefnu til 2030, áætlun gegn ofbeldi og frumvarp félagsmálaráðherra gegn hinni svokölluðu krónu á móti krónu skerðingu.

„En það er alls óvíst hvort og þá hvenær þessi mál fá hér fram að ganga vegna þeirrar stöðu sem við stöndum nú frammi fyrir. Vegna þess að einn þingflokkur hefur tekið það að sér að tala hér í tæpar tvær vikur, á milli þess sem hann reynir að sannfæra þing og þjóð um að þeir séu alls ekki að stunda málþóf. Á meðan bíðum við hin 54 sem eigum sæti hér á Alþingi, eftir því að geta tekið þessi góðu og þörfu mál til umræðu og afgreiðslu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert