Hjálmaskylda verði til 16 ára aldurs

Þingnefndin segir „kappsmál“ að hjólreiðar verði útbreiddur ferðamáti.
Þingnefndin segir „kappsmál“ að hjólreiðar verði útbreiddur ferðamáti. mbl.is/Hari

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hefur tekið frumvarp til umferðarlaga til umfjöllunar að nýju og afturkallað breytingartillögu þess efnis að hjálmaskylda á reiðhjólum yrði til 18 ára aldur í stað 15 ára aldur eins og nú er. Þess í stað leggur nefndin til að hjálmaskylda verði til 16 ára aldurs og nái því til allra barna á grunnskólaaldri.

„Talsverð umræða var um málið og nefndinni bárust athugasemdir um að þessi breytingartillaga gengi of langt og myndi m.a. hafa áhrif á markmið sveitarfélaga um breyttar ferðavenjur og mögulega á greiðslu tryggingabóta. Bent var á að hjálmaskylda gæti haft neikvæð áhrif að því leyti að hún gæti dregið úr hjólreiðum,“ segir í nefndarálitinu sem birt hefur verið á vef þingsins.

„Kappsmál“ að hjólreiðar verði útbreiddur ferðamáti

„Að mati nefndarinnar er brýnt að öryggi sé í hávegum haft þegar kemur að hjólreiðum sem og öðrum samgöngumátum. Að sama skapi er kappsmál að hjólreiðar verði útbreiddur ferðamáti bæði meðal fullorðinna og barna, m.a. með hliðsjón af lýðheilsu- og loftslagssjónarmiðum,“ segir í álitinu, en nefndin telur einnig nauðsynlegt að rannsókn á hjálmanotkun verði framkvæmd hér á landi.

„Á grunni niðurstaðna hennar og annarra gagna væri hægt að endurskoða með heildstæðum hætti reglur og viðmið um hjálmanotkun og undirbyggja öruggar og útbreiddar hjólreiðar sem virkan samgöngumáta. Með vísan til þessa beinir nefndin því til ráðuneytisins að láta vinna slíka rannsókn um hjálmanotkun og áhrif hennar til að stuðla að auknu öryggi hjólreiðamanna,“ segir í álitinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert