„Við erum að fara í dýfu“

Erlendir ferðamenn sem fóru um Leifsstöð voru umtalsvert færri í …
Erlendir ferðamenn sem fóru um Leifsstöð voru umtalsvert færri í maí í ár en í fyrra. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

„Við höfum verið að benda á það í svolítinn tíma að dýfan gæti verið dýpri og heldur lengri en menn voru að sjá fyrir sér.“ Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), í samtali við mbl.is vegna fregna um að brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll hafi í maí verið tæplega fjórðungi færri en í sama mánuði í fyrra. 

Hann segir að færri muni starfa við ferðaþjónustu að ári en gera nú, en segir þó að hann telji ekki að hápunkti hafi verið náð í íslenskri ferðaþjónustu. „Ég held ekki, eins og sumir álitsgjafar hafa sagt á undanförnum dögum, að þetta sé klassískt íslenskt heilkenni þar sem við förum ofsalega hratt af stað og svo fer allt í klessu. Þetta er ekki þannig. Þetta er bara sveifla í atvinnugreininni.“

„Væri verulegt áfall“

„Þetta er heldur meiri fækkun en við áttum von á í maí. Vonir okkar stóðu til þess að fækkunin yrði kannski mest í apríl. Það er hefðbundið að apríl sé slakasti ferðamannamánuðurinn á Íslandi. Það eru nokkur vonbrigði að það skuli vera svona mikil fækkun í maí,“ segir Jóhannes. Spurður hvort viðbúið sé að áfram verði í sumar fluttar fréttir af fækkun erlendra ferðamanna svarar Jóhannes: „Við vitum það að almennt verður fækkun á árinu, þó ekki væri nema vegna minna flugframboðs. Við vonumst nú samt til þess að það verði ekki svona mikið, það væri verulegt áfall ef svo mikil fækkun heldur áfram út sumarmánuðina.“

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður hvort höfuðástæðan fyrir fækkuninni sé minna framboð á flugferðum til og frá Íslandi svarar Jóhannes: „Það hlýtur að hafa töluvert að segja, en eins og við höfum áður bent á áður þá erum við líka að glíma við minnkandi eftirspurn af ýmsum samverkandi ástæðum.“

„Ekki búin að ná toppnum“

Eins og áður segir bendir Jóhannes á að um sé að ræða sveiflu, og að ferðaþjónusta sé atvinnugrein sem er sveiflum háð „bæði varðandi áhuga ferðamanna á mismunandi áfangastöðum, og verð hefur töluvert að segja. Svo ekki síður framboð á flugferðum. Þegar framboð á flugferðum minnkar þá hækkar verð á flugmiðum sem í boði eru. Þetta hefur allt samverkandi áhrif.“

Jóhannes telur ekki að hápunkti hafi verið náð í íslenskri …
Jóhannes telur ekki að hápunkti hafi verið náð í íslenskri ferðaþjónustu. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég held við séum ekki búin að ná toppnum í íslenskri ferðaþjónustu. Við erum hins vegar að fara í dýfu. Það er algjörlega ljóst. Hún mun taka einhvern tíma,“ heldur Jóhannes áfram og segir aðspurður að hvert fyrirtæki verði að horfa í reksturinn hjá því til að undirbúa sig fyrir komandi tíma. „Við vitum það að flest fyrirtæki í ferðaþjónustu í dag eru að horfa á það hvernig þau geta hagrætt í rekstri til að fara í gegnum þetta tímabil á sem skynsamlegastan máta. Við vitum að það þýðir að það mun þurfa að draga saman rekstur hjá mjög mörgum, ef ekki vel flestum. Það mun þýða að það verða færri sem starfa í ferðaþjónustu næsta vor heldur en eru að gera núna, því miður.“

Hann bætir hins vegar við að skeiðinu muni ljúka og að sókn í ferðaþjónustu muni aftur nást. „Ég er bjartsýnn á það að eftir svona átján mánuði til tvö ár þá verðum við komin á svipaðar slóðir og við vorum á í fyrra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert