Þjóðir ráði sjálfar yfir auðlindum sínum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við hljótum að vilja fá allar staðreyndir á hreint,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins í Víglínunni á Stöð 2, þar sem meintar mútur Samherja í Namibíu voru meðal annars til umræðu. Sigmundur og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, ræddu einnig nýja könnun um fylgi stjórnmálaflokka.

Sigmundur var spurður að því hvers vegna þingmenn Miðflokksins hefðu lítið haft sig í frammi þegar Samherjamálið var til umræðu á Alþingi. Sigmundur svaraði því til að það hefði verið erfitt að komast að þar sem þingmenn klifruðu hver yfir annan en bætti því við að flokksmenn hefðu tekið þátt í umræðum.

Hann sagðist vona að rannsókn á málinu verði ítarleg og að hún gangi vel. „Það sem þetta mál hefur minnt á er að þjóðir ráði sjálfar yfir auðlindum sínum og nýti þær. Eins og Ísland og orkumálin. Það fer illa fyrir þjóðum sem missa yfirráð yfir auðlindum sínum,“ sagði Sigmundur.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorgerður Katrín sagði að það væri afar mikilvægt að virða reglur réttarríkisins. Hún sagði að í þessu máli kæmi í ljós hversu mikilvægt sanngjarnt og réttlátt auðlindagjald væri. 

Þorgerður vitnaði í ræðu Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, frá haustfundi flokksins í gær og sagði að hann væri að vakna. Sigurður Ingi sagði þá að mikilvægt væri að nýtt auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar, sem var í sam­ráðsgátt stjórn­valda fyrr á ár­inu, verði sett í stjórn­ar­skrána. 

Niðurstaðan til marks um „Trump-isma“

Eins og áður hefur komið fram mælist Miðflokkurinn með næst mest fylgi stjórnmálaflokka í könnun MMR. Sigmundur Davíð þakkaði staðfestu flokksins það og sagði aðra flokka of mikið reyna að „bregðast við umræðu dagsins“ eins og hann orðaði það.

Þorgerður sagðist þokkalega ánægð með niðurstöðuna og óskaði Sigmundi til hamingju með niðurstöðuna. Hún sagði þetta áhugavert og til marks um ákveðinn „Trump-isma“ og líkti Sigmundi við Donald Trump og Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands.

Sigmundur sagðist ekki kunna vel við svona „stimpil-stjórnmál“ og kvaðst kunna því illa þegar menn væru sagðir eins og þessi eða hinn. „Það finnst mér lélegt,“ sagði Sigmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert