Sjálfstæðisflokkurinn stærstur með 20%

Litlar breytingar eru á fylgi flokka milli mánaða.
Litlar breytingar eru á fylgi flokka milli mánaða. mbl.is/Hari

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur flokka, með 20% fylgi, í nýrri skoðanakönnun MMR. Eykst fylgi flokksins um 1,9 prósentustig frá könnun í síðasta mánuði er hann hlaut sína verstu niðurstöðu frá upphafi mælinga MMR.

Næst á eftir koma Samfylkingin og Miðflokkurinn með 14,4% og 14,3%, en flokkarnir hafa sætaskipti í könnuninni. Því næst koma Píratar, en fylgi þeirra mælist 11,8% samanborið við 10,8% í síðustu könnun.

10,5% aðspurðra segjast myndu kjósa Viðreisn ef gengið væri til kosninga nú, samanborið við 9,7% í könnuninni fyrir mánuði. Þá njóta Vinstri græn stuðnings 10,3% kjósenda og Framsóknarflokkurinn 8,3%.

Sósíalistaflokkur Íslands bætir við sig töluverðu fylgi frá síðustu könnun og fengi 5,2% atkvæða, samanborið við 3,0% í síðustu könnun. Yrðu þetta niðurstöður kosninga fengi flokkurinn því mann á þing í fyrsta sinn. Fylgi Flokks fólksins dalar að sama skapi og mælist nú 4,0% samanborið við 6,3% í síðustu könnun, en það myndi að öllum líkindum ekki duga til að ná inn þingmönnum.

Stuðningur við ríkisstjórnina heldur áfram að dala. 39% aðspurðra segjast nú styðja ríkisstjórnina, samanborið við 41,5% fyrir mánuði, en 67% sögðust styðja stjórnina er hún tók við völdum fyrir rétt um tveimur árum.

Könnunin var framkvæmd dagana 13. til 19. desember og var með hefðbundnu sniði. Úrtak var valið handahófskennt úr hópi einstaklinga 18 ára og eldri, og voru þátttakendur 1.014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert