Guðni gefur kost á sér til endurkjörs

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, hefur ákveðið að gefa kost …
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, hefur ákveðið að gefa kost á sér til endurkjörs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur ákveðið að  bjóða sig fram til endurkjörs en kjörtímabili hans lýkur 1. ágúst. Þetta kom fram í nýársávarpi forsetans í Sjónvarpinu. Guðni var kjörinn forseti Íslands 25. júní 2016 og settur í embætti 1. ágúst það sama ár. 

Alls voru 245.004 á kjör­skrá en 185.390 at­kvæði voru greidd. Kjör­sókn var því 75,7%.

Guðni hlaut 38,49% greiddra at­kvæða eða 71.356 at­kvæði alls og hann því kjör­inn sjötti for­seti lýðveld­is­ins.

Halla Tóm­as­dótt­ir hlaut 27,51% allra at­kvæða eða 50.995 og Andri Snær Magna­son 14,04%, 26.037. Davíð Odds­son hlaut 13,54%, alls 25.108 at­kvæði og Sturla Jóns­son hlaut 3,48%, 6.446 at­kvæði. Aðrir hlutu und­ir eitt pró­sent at­kvæðanna.

Guðni Th. Jóhannesson fæddist í Reykjavík 26. júní árið 1968. Hann er sonur hjónanna Margrétar Thorlacius, kennara og blaðamanns, og Jóhannesar Sæmundssonar, íþróttakennara og landsliðsþjálfara, sem lést árið 1983. Guðni ólst upp í Garðabæ og á tvo bræður, Patrek, íþróttafræðing og handboltaþjálfara, og Jóhannes kerfisfræðing.

Guðni útskrifaðist árið 1987 með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík. Hann stundaði nám í sögu og stjórnmálafræði við Warwick-háskóla á Englandi og útskrifaðist þaðan með BA-gráðu árið 1991. Eftir það lærði hann þýsku við Háskólann í Bonn í Þýskalandi. Hann nam  rússnesku á árunum 1993-1994 við Háskóla Íslands. Guðni útskrifaðist með meistaragráðu í sagnfræði frá HÍ árið 1997. Hann nam sagnfræði á árunum 1998-1999 við Oxfordháskóla á Englandi og útskrifaðist þaðan árið 1999 með MSt-gráðu í sögu. Árið 2003 lauk hann doktorsprófi í sagnfræði frá Queen Mary, University of London.

Guðni er kvæntur Elizu Reid og kynntust þau á námsárum sínum við Oxford-háskóla á Englandi. Eliza er frá Kanada og lauk prófgráðum í nútímasögu í Oxford og í alþjóðasamskiptum við Torontoháskóla. Guðni og Eliza hafa verið búsett hérlendis frá árinu 2003. Börn þeirra eru Duncan Tindur (f. 2007), Donald Gunnar (f. 2009), Sæþór Peter (f. 2011) og Edda Margrét (f. 2013). Guðni á dótturina Rut (f. 1994) með fyrri eiginkonu sinni, Elínu Haraldsdóttur, viðskiptafræðingi og listakonu.

Árin 2013-2016 var Guðni kennari í sagnfræði við Háskóla Íslands, lektor, dósent og síðast prófessor. Áður var hann lektor við Háskólann í Reykjavík og stundakennari við Háskóla Íslands, Háskólann á Bifröst og University of London. Jafnframt vann hann um árabil við afleysingar á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Guðni hefur skrifað fjölda sagnfræðirita, meðal annars um sögu þorskastríðanna, um forsetaembættið, um embættistíð Kristjáns Eldjárns forseta Íslands, ævisögu Gunnars Thoroddsens og bókina Óvinir ríkisins en tvær þær síðastnefndu voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Að auki hefur Guðni skrifað fjölda fræðigreina um sögu Íslands og samtíð og hefur hann hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir fræðistörf sín. Árið 2017 var hann sæmdur nafnbót heiðursdoktors við Queen Mary University of London.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka