Bæir rafmagnslausir frá klukkan 3 í nótt

Ljósmynd/Rósant Guðmundsson

Fimm til sex bæir eru straumlausir á svæði austan Hafnar í Hornafirði vegna bilunar á streng milli Hafnar og Hóla. Þetta segir Björn Ingvarsson, sem er á svæðisvakt á Austurlandi.  

Rafmagn fór af frá Höfn og vestur í Skaftafell klukkan þrjú í nótt en tókst að koma rafmagni á í áföngum á stórum hluta svæðisins sem var þá einungis rafmagnslaust í um klukkustund.

Ekki var þó unnt að koma rafmagni á aftur á stóru svæði á milli Hafnar og Hóla og hafa áðurnefndir bæir því verið án rafmagns frá því klukkan þrjú í nótt. 

„Það er verið að vinna að bilanaleit. Það er búið að þrengja það svo það er stutt í að við getum farið að koma rafmagni inn,“ segir Björn. 

Veður á að vera vont á landinu öllu í dag, þó sérstaklega á miðhálendi, Suður- og Vesturlandi. Bilunin tengist ekki veðri, að sögn Björns, en þó sé farið að hvessa duglega fyrir austan núna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert