Fundað um mögulega landamæralokun

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Mögulegt bann Schengen-ríkja við ónauðsynlegum ferðum til Schengen-svæðisins er nú til umræðu á fundi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra með Michael Mann, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, lagði bannið til í ávarpi fyrr í dag.

Áslaug Arna segir í samtali við RÚV að ferðabannið geti haft mikil áhrif á Ísland. „Þetta gæti auðvitað haft mjög mikil áhrif á Ísland, þetta eru mjög stór tíðindi og bar mjög brátt að í dag. Við erum að skoða þetta og munum ræða í ríkisstjórn á morgun,“ segir hún og bætir við að auka þurfi viðbúnað við landamæri Íslands fari svo að bannið verði sett á.

Leiðtogar Evrópusambandsríkja funda í Brussel á morgun þar sem tillögur von der Leyen verða til umræðu. Auk allflestra ríkja Evrópusambandsins eiga Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss aðild að Schengen-samstarfinu en aðildarríki þess hafa lagt niður innra landamæraeftirlit og sameinast þess í stað um ytri landamæragæslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert