Hjarðónæmisaðferðin sætir gagnrýni

Vísbendingar eru til staðar um að hjarðónæmisaðferð sé beitt til …
Vísbendingar eru til staðar um að hjarðónæmisaðferð sé beitt til þess að mæta kórónuveirunni á Íslandi. Sú aðferð hefur hlotið þó nokkra gagnrýni í Bretlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fleiri en 200 vísindamenn í Bretlandi hafa gagnrýnt í opnu bréfi þá aðferðarfræði sem reynt hefur verið að beita þar í landi gegn útbreiðslu kórónuveirunnar, en það virðist vera sú aðferðarfræði sem beitt hefur verið í sama tilgangi á Íslandi.

Í bréfinu sætir Sir Patrick Vallance, leiðandi vísindaráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar, harðri gagnrýni fyrir að reyna að stjórna útbreiðslunni í þeim tilgangi að stuðla að hjarðónæmi þjóðarinnar. Auk þess telja vísindamennirnir að aðferðin skapi hættu á að heilbrigðisþjónusta Bretlands verði fyrir það miklu álagi að það setji líf fleiri einstaklinga í hættu en þörf er á, að því er fram kemur í umfjöllun BBC.

Segja þetta ekki raunhæfan kost

Haft hefur verið eftir Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnalækni, á mbl.is: „Ég held að við munum ná ágætis ónæmi í samfélaginu. Það getur tekið smá tíma og þess vegna erum við að grípa til þessara aðgerða.“

Jafnframt hefur RÚV haft eftir Þórólfi á upplýsingafundi almannavarna 15. mars að það sé mögulegt að ná hjarðónæmi með því að færri en 60% þjóðarinnar sýkist af kórónuveirunni. Þar af leiðandi taldi hann það ekki fela í sér vonbrigði þótt einhverjir væru að greinast og lagði hann áherslu á að mikilvægast væri að koma í veg fyrir að fólk í áhættuhópum sýkist.

Virðist þetta líkt skilaboðum ráðgjafahóps breskra stjórnvalda (SAGE) sem hafa lagt mikla áherslu á að áhættuhópar verði einangraðir til þess að vernda þá. Sagði Vallance fyrir viku að það væri hluti af áætlun breskra stjórnvalda að stjórna útbreiðslunni þannig að hluti íbúa myndi ónæmi fyrir veirunni.

Gerðu breskar áætlanir ráð fyrir að um 60% íbúa þurfi að smitast til þess að hjarðónæmi myndist. Er ætlunin því að vernda fólk í áhættuhópum á meðan aðrir smitast. Hins vegar telja vísindamennirnir sem bréfið rita að aðgerð af þessum toga sé á þessum tímapunkti ekki raunhæfur kostur.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bent er á í umfjöllun BBC að nálgun breskra stjórnvalda sé í mikilli andstöðu við aðferðir annarra ríkja svo sem Ítalíu, Póllands, Spánar og Frakklands.

Vísindamennirnir, sem hafa fjölbreyttan bakgrunn allt frá stærðfræði til erfðafræði, segja þörf á mun harðari takmarkörkunum, m.a. er varða þá fjarlægð sem fólk á að halda hvert frá öðru (e. social distancing). Þá séu núverandi ráðstafanir „ófullnægjandi“ og mikilvægt að grípa til „umfangsmeiri takmarkana án tafar,“ eins og gert sé í öðrum ríkjum.

Gríðarlegur fjöldi smitaðra

Willem Von Schaik, prófessor í örverufræði við Háskólann í Birmingham, segir ókostinn við hjarðónæmisaðferðina þá að 36 milljónir Breta myndu þurfa að smitast, en það myndi jafngilda að yfir 200 þúsund Íslendingar myndu smitast af kórónuveirunni.

„Það er nánast ógerlegt að spá fyrir um hvað þetta muni þýða í formi manntjóns, en við erum af varfærni að horfa fram á dauða tuga þúsunda og mögulega hundruð þúsunda,“ segir hann. Þá sé eina leiðin til að aðferðin virki að tryggja að smit breiðist hægt út yfir langan tíma þannig að bresk heilbrigðisþjónusta kikni ekki undan álaginu.

Vert að láta reyna á frekari takmarkanir

Í öðru bréfi til breskra stjórnvalda, sem rúmlega 200 atferlisfræðingar undirrita, eru sett spurningamerki við rökstuðning breskra stjórnvalda um að hertar aðgerðir myndu leiða til þess að fólk myndi reyna að komast hjá þeim.

Bæði bréfin voru send síðustu helgi og hafa bresk stjórnvöld nú ákveðið að herða aðgerðir sínar, meðal annars með því að loka skólum þar í landi.

„Þó svo að við styðjum nálgun byggða á atferlisvísindalegum grunni, erum við ekki sannfærð um að nægilega mikið sé vitað um hegðunarþreytu (e. behaviourar fatigue) eða að hversu miklu leyti sú þekking gildir í núverandi fordæmalausu aðstæðum,“ segir í bréfi atferlisfræðinganna.

Þá séu hins vegar vísbendingar um að atferlisbreytingar, eins og aukin handþvottur, séu líklegri til þess að eiga sér stað meðal almennings eftir því sem hann upplifir meiri neyð. „Að halda áfram eins og allt sé óbreytt eins lengi og hægt er til þess fallið að draga úr þeirri upplifun.“

Segja vísindamennirnir róttækar hegðunarbreytingar geti haft mun betri áhrif og gæti bjargað mörgum mannslífum. Vísa þeir til árangurs í Kína og Suður-Kóreu og segja að upplýsingar þaðan gefa tilefni til „að minnsta kosti láta á þetta reyna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert