Skólum lokað í Bretlandi

Lestarstöð í London í morgun.
Lestarstöð í London í morgun. AFP

Skólum verður lokað í Bretlandi í dag en bresk yfirvöld hafa ákveðið að herða aðgerðir í baráttunni gegn kórónuveirunni. Staðfest smit hafa tvöfaldast á nokkrum dögum. 

Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, hefur hingað til barist gegn skólalokunum vegna áhrifa þess á atvinnulífið en vegna breyttrar stöðu í landinu ákvað hann að láta undan. Alls eru 3.297 smitaðir og 144 hafa látist í Bretlandi.

Í Belgíu hefur smitum einnig fjölgað hratt og eru þau nú orðin rúmlega tvö þúsund. Í dag hafði dauðsföllum fjölgað úr 16 í 37 vegna COVID-19. 462 ný smit hafa verið greind í Belgíu síðasta sólarhringinn og eru 2.257 smitaðir þar í landi. 

Londonbrúin er ansi tómleg.
Londonbrúin er ansi tómleg. AFP

Í Bretlandi er lögð áhersla á að þeir sem starfa í framlínunni í baráttunni við veiruna geti sent börn sín í skóla og leikskóla. Á það við starfsmenn heilbrigðis- og velferðarsviðs sem og kennara og leikskólakennara, lögreglu og fleiri. Að sögn heilbrigðisráðherra Bretlands, Matt Hancock, var ákveðið að loka skólum til að hægja á útbreiðslu kórónuveirunnar. 

Hann segir að verið sé að hafa samband við 65 þúsund lækna og hjúkrunarfræðinga sem hafa farið nýlega á eftirlaun og þau beðin um að koma til starfa að nýju eins fljótt og auðið er. 

Um 130 þúsund Frakkar eru strandaglópar erlendis vegna aðgerða sem koma í veg fyrir að fólk sé frjálst ferða sinna á milli landa. Utanríkisráðherra Frakklands, Jean-Yves Le Drian, segir að unnið sé að því að reyna að koma þeim heim. Hann hvetur flugfélög til þess að hætta ekki að fljúga til Frakklands og eins að lækka verð á flugfargjöldum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert