Smitum fjölgar: Hópsýking kom upp á Landakoti

Einhverjar hópsýkingar hafa komið upp að undanförnu, svo sem á …
Einhverjar hópsýkingar hafa komið upp að undanförnu, svo sem á Landakotsspítala. mbl.is/Golli

Kórónuveiran er enn á ferðinni og svo virðist sem að smitum hafi farið fjölgandi hér á landi að undanförnu að sögn Guðrúnar Aspelund sóttvarnalæknis.

„Tölurnar eru ennþá lágar, en að einhverju leyti virðast smit vera að aukast, það voru töluvert fleiri greiningar undanfarnar þrjár vikur en höfðu verið vikurnar á undan,“ segir hún.

Tekur Guðrún fram að sóttvarnalækni berist aðeins tölur um rannsóknarniðurstöður og klínískar greiningar, en ekki um fjölda jákvæðra heimaprófa. 

„Það er náttúrulega einhver fjöldi fólks sem fær jákvætt úr heimaprófi, en leitar ekki til læknis.“

Handþvottur með sápu er besta forvörnin.
Handþvottur með sápu er besta forvörnin. Ljósmynd/Colourbox

Hópsýkingar koma upp víða

„Fjöldi greininga var í maímánuði kominn niður í einstafa tölur, fimm, sex eða sjö tilfelli á viku, en í síðustu viku sáum við tilfellin vera nær tuttugu talsins,“ segir Guðrún. 

Einhverjar hópsýkingar hafa komið upp að undanförnu, svo sem á Landakotsspítala, en einnig hafa fyrirtæki tilkynnt möguleg hópsmit til sóttvarnalæknis eftir að stór fjöldi starfsmanna fær jákvæðar niðurstöður úr heimaprófi. 

„Þannig þetta er vissulega ennþá í gangi, sem er í samræmi við það sem við höfum verið að sjá annars staðar.“

„Ekki lengur að segja hvað má og má ekki“

Aðrir smitsjúkdómar hafa verið áberandi á árinu, helst kíghósti og RS-vírus, en tölulegar upplýsingar virðast benda til þess að nokkuð hefur dregist úr þeim smitum á meðan kórónuveirusmitum hafi fjölgað.  

„Þeir smitsjúkdómar sem höfðu verið áberandi fyrr á árinu eru þannig séð farnir núna, eins og inflúensan eða RS-vírusinn, og eru að haga sér eins og við var búist. En kórónuveiran virðist hins vegar ekki vera komin með þetta mynstur og er ennþá að malla.“

Guðrún leggur áherslu á að til að sporna við smitum af hvers konar smitsjúkdómum, sé handþvottur með sápu besta forvörnin. Þá sé ekkert endilega þörf á einangrun þótt fólk hafi greinst jákvætt af kórónuveirunni, en forðast skuli óþarfa nánd við viðkvæma hópa.

„Við erum ekki lengur að segja fólki hvað það má og má ekki gera, en almennt á fólk bara að halda sig heima ef það er lasið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert