„Hva, ætlarðu að vera forseti?“

„Mér var bókstaflega ýtt út í þetta ævintýri,“ segir frú …
„Mér var bókstaflega ýtt út í þetta ævintýri,“ segir frú Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands 1980-1996. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar Kristján Eldjárn, þáverandi forseti, tilkynnti í nýársræðu sinni 1980 að hann hygðist ekki gefa kost á sér aftur datt Vigdísi Finnbogadóttur ekki í hug að það færi svo að hún yrði eftirmaður hans.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegu viðtali við Vigdísi í Sunnudagsmogganum um helgina. Tilefnið er níræðisafmæli Vigdísar næstkomandi miðvikudag. 

„Mér var bókstaflega ýtt út í þetta ævintýri,“ segir Vigdís. Hún segir kveikjuna hafa verið lesendabréf í síðdegisblaðinu Vísi frá Laufeyju Jakobsdóttur. „Það var beinlínis verið að leita að kvenmanni til að bjóða sig fram, og farið yfir hinar ýmsu framákonur í samfélaginu. Og Laufey spurði í þessu lesendabréfi: „Af hverju biðjum við ekki hana Vigdísi að bjóða sig fram?“ Ég man að ég var þá í Leikfélaginu og datt þetta auðvitað ekki í hug. Einn af mínum samstarfsmönnum sagði: „Hva, ætlarðu að vera forseti?“ og ég blygðaðist mín svo mikið!“ segir Vigdís og hlær við tilhugsunina.

„Sjómenn kunna svo vel að meta konur“

„En svo komst þetta bara á skrið. Ýmsir ágætis menn fóru að sjá hvað þetta væri þarft verk, að fá konu í framboð, og að kona yrði þeirra kandídat.“ Vigdís rifjar upp að hún fékk skeyti frá áhöfninni á togaranum Guðbjarti ÍS þar sem hún var hvött til að gefa kost á sér. „Sjómenn kunna svo vel að meta konur, því þær sjá um allt í landi á meðan þeir eru fjarri. Ég hef enga stétt heyrt tala jafnfallega um konur og sjómenn,“ segir Vigdís.

Hún nefnir einnig að vinir hennar hafi kallað sig á fund, þar sem þau hvöttu hana til að bjóða sig fram. „Þau sögðu, þú ert oddvitinn, og við styðjum við þig. Og það var þá sem ég lét loks tilleiðast. Það er svo margt minnisvert frá þessum tíma, það vildu svo margir tala við mig og veita mér stuðning.“

Vigdís efaðist þó fram á síðustu stundu. „Eftir að hafa tekið þessa ákvörðun var ég vakandi alla nóttina og ryksugaði heimilið í gríð og erg, eins og ég hef einhvers staðar áður getið,“ segir Vigdís. Hún var ákveðin í að hringja um morguninn um leið og vinir hennar vöknuðu og draga framboðið til baka. „Mér var þá sagt að það væri of seint, það væri búið að láta blöðin vita og þau myndu mæta klukkan hálfníu.“

Hægt er að lesa viðtalið í Sunnu­dags­mogg­an­um sem kom út í dag og hér á mbl.is í vefút­gáfu Morg­un­blaðsins:

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert