Sýslumaður vinnur að lausn við röðinni

Frá skrifstofu sýslumanns í Kópavogi í morgun.
Frá skrifstofu sýslumanns í Kópavogi í morgun. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er svona alla daga,“ segir Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, um þær raðir sem myndast hafa við skrifstofu sýslumanns í Kópavogi undanfarna daga og vikur vegna samkomubanns.

„Það segir sig sjálft. Við erum bundin af þessu 20 manna samkomubanni og þurfum að hafa tíu í afgreiðslunni til að sinna öllum þeim erindum sem okkur ber skylda til að sinna.“

Þórólfur segir að viðbúið sé að svona verði staðan að minnsta kosti til 4. maí, þegar til stendur að draga úr samkomubanni og miða við 50 manns í stað 20. Sýslumannsembættið hafi þó verið að vinna að lausn vandans, svo sem með stafrænum afgreiðslunúmerum.

Töldu fólk ekki eiga rétt á að fara fram fyrir

Kerfið var prófað í síðustu viku en það gekk ekki sem skyldi, en að sögn Þórólfs var talsverður fjöldi þeirra sem sótti þjónustu sýslumanns ekki með snjallsíma. Þá hafi þeir, sem ekki höfðu snjallsíma og biðu því í hefðbundinni röð fyrir utan húsnæðið, verið ósáttir við að aðrir, sem verið hafi með stafrænt afgreiðslunúmer, hafi farið fram fyrir þá, að því er þeir töldu án þess að eiga rétt á því.

„Við erum enn að vinna þetta og vonumst til að hægt verði að koma þessu í framkvæmd eftir 4. maí. Þá geti fólk þess vegna tekið númer heima hjá sér í stað þess að bíða í röð.“

Aðspurður hvort hann vilji beina einhverju til fólks þangað til segir Þórólfur að lítill álagsmunur sé milli daga og tíma dagsins, en hann biður fólk að hafa í huga að ekki mæti fleiri en nauðsynlega þurfa til að sinna hverju erindi fyrir sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert