Þórólfur og Dagur ræða fleiri göngugötur

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ræða í …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ræða í dag hugmyndir borgarstjóra um útvíkkaðar göngugöturáðstafanir í Reykjavík, sem eiga meðal annars að gera rekstraraðilum kleift að þjónusta fleiri innan leyfilegra marka. mbl.is

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fundar í dag símleiðis með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra til að ræða við hann hugmyndir hans um að fjölga göngugöturýmum í borginni í sumar.

Hugmyndir Dags snúa að því að losa um regluverkið fyrir rekstraraðila til þess að geta nýtt ekki aðeins gangstéttir, heldur hugsanlega einnig götur, til að búa til meira pláss fyrir gesti til dæmis veitingastaða.

Þórólfur sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að sín vegna væri það alfarið í höndum fyrirtækja og aðila að útfæra sín viðbrögð við þeim samkomutakmörkunum sem þegar eru í gildi. Hann ræðir það við borgarstjóra á eftir hvað gæti falist í útvíkkaðri heimild rekstraraðila til að nota autt pláss á götum í sína þágu og viðskiptavina sinna.

Dagur hefur sagt að borgaryfirvöld komi ekki til með að ákveða að loka götum án samráðs við rekstraraðila á svæðinu. Eyþór Arnalds, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, hefur vegna þessara áforma sagt við mbl.is að fólk sé betur varið fyrir veirunni inni í einkabílum og lýst yfir efasemdum um að fleiri göngugötur séu sú lausn sem íbúarnir kalli eftir. 

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði á upplýsingafundinum að hugsunin á bakvið sóttvarnaráðstafanir yfirvalda sé einfaldlega sú að takmarka náin samskipti. Finni fólk hugmyndaríkar leiðir til að halda áfram sinni starfsemi innan þess ramma, sé hann, Víðir, ævinlega fylgjandi því sem gerir fólki kleift að njóta lífsins betur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert