Vitum ekki hvort botninum sé náð

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri. mbl.is/Eggert

Ferðamálastjóri segir að búast megi við talsvert af uppsögnum hjá ferðaþjónustufyrirtækjum í dag vegna stöðunnar í tengslum við kórónuveiruna. 

Hann segir greinilegt að fyrirtæki séu að horfa til þess að nota hlutabótaleiðina sem stjórnvöld hafa boðið upp á, í þeim tilfellum sem það er hægt.

„Hversu mikið af uppsögnum verður eftir mánuð er ómögulegt að segja. Við vitum ekki hvenær við náum botninum og hvort við séum búin að ná honum,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri, spurður út í uppsagnahrinuna sem gengur nú yfir ferðamannaiðnaðinn.

Dapurlegt en viðbúið 

Hann segir uppsagnirnar undanfarið hafa verið viðbúnar, eins dapurlega og það hljómi. „Ef þær gefa fyrirtækjunum möguleika á að fara fyrr af stað þá er þetta mjög mikilvægt. Með þessum aðgerðum komast fyrirtækin síður í greiðsluþrot og geta staðið við skuldbindingar gagnvart starfsmönnum. Síðan er mikilvægt að um leið og tækifæri gefst komist ferðaþjónustan aftur af stað og þessar aðgerðir miða við það.“

Ferðamenn á gangi í miðbæ Reykjavíkur.
Ferðamenn á gangi í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Eggert

Bætt í eftir að skýrslan var gerð

Í gær var gefin út skýrsla sem KPMG vann fyrir Ferðamálstofu til að meta hvernig fjárhagsleg úrræði stjórnvalda sem höfðu komið fram fyrir 28. apríl, væru líkleg til að nýtast félögum í ferðaþjónustu á Íslandi. Stjórnvöld kynntu síðan áframhaldandi efnahagsaðgerðir, þar á meðal framhald hlutabótaleiðarinnar, í hádeginu 28. apríl sem breytti landslaginu nokkuð miðað við það sem stóð í skýrslunni.

Skarphéðinn Berg bendir á að Ferðamálastofa birti fyrir tveimur vikum viðamikla skýrslu sem var unnin með KPMG og þessi sem var birt í gær hafi verið framhald hennar. „Eftir að hún var gerð hefur verið bætt í [af hálfu stjórnvalda] og nú er okkar að fleiri að átta okkur hvernig næstu skref verða.“

Hann segir að nýja skýrslan sýni að aðgerðapakki tvö hafi hentað fjölmörgum litlum og meðalstórum fyrirtækjum en núna sé spurning hvernig þriðji pakkinn gagnast. „Það er okkar hlutverk að vinna þessar upplýsingar í hendurnar á stjórnvöldum.“

Í skýrslunni kemur m.a. fram að brúarlánin henti 17% fyrirtækja að meðaltali. Skarphéðinn nefnir að enn sé verið að þróa þessar útfærslur og að sú vinna sé fyrst og fremst á vegum bankanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert