Brot Lilju með þeim verri sem hafa sést

„Þetta gengur ekki lengur svona,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður …
„Þetta gengur ekki lengur svona,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. mbl.is/Hari

Af rökstuðningi kærunefndar jafnréttismála er erfitt að draga aðra ályktun en að um ásetningsbrot hafi verið að ræða þegar Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra skipaði Pál Magnússon í embætti ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins.

Þetta sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi fyrr í dag. Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að Lilja hefði brotið jafnréttislög þegar hún skipaði Pál sem ráðuneytisstjóra í ráðuneyti sínu. RÚV greindi fyrst frá. 

Embætti ráðuneytisstjóra var auglýst í júní á síðasta ári og sóttu þrettán um stöðuna. Fjórir voru metnir hæfastir af hæfisnefnd, tvær konur og tveir karlar. Hafdís Helga Ólafsdóttir kærði skipunina og komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að menntamálaráðherra hefði vanmetið hæfi hennar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra braut jafnréttislög þegar hún skipaði Pál …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra braut jafnréttislög þegar hún skipaði Pál Magnússon í embætti ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Annmarkar á málsmeðferð og rökstuðning skorti

Í úrskurðinum segir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð og ákvarðanatöku ráðuneytisins við mat og val á umsækjendum um stöðuna. Þannig hafi menntun, reynsla af opinberri stjórnsýslu, leiðtogahæfileikar og hæfni Hafdísar verið vanmetin.

Að auki hafi skort verulega á efnislegan rökstuðning menntamálaráðherra fyrir ráðningunni og ljóst sé að Páll hafi ekki staðið Hafdísi framar við ráðninguna. Áslaug Árnadóttir, lögmaður Hafdísar, hefur sagt að skjólstæðingur sinn sé að íhuga næstu skref og hvort að hún fari fram á bætur.

Hanna Katrín minnti á að opinberar stofnanir hafi í 25 skipti frá árinu 2009 gerst brotlegar við jafnréttislög. Hún sagði að brot menntamálaráðherra væri með þeim verri sem hefðu sést.

Hún beindi fyrirspurn sinni til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og spurði hvort að hún hefði ekkert annað í vopnabúrinu en að beina kurteisilegum tilmælum til þeirra sem stóðu að brotinu.

„Hvernig ætlar hæstvirtur forsætisráðherra, hæstvirtur ráðherra jafnréttismála, að bregðast við?“

Lilja þarf að gera grein fyrir sínum sjónarmiðum

Katrín sagði að Lilja hefði upplýst ríkisstjórnina um úrskurð kærunefndar á síðasta ríkisstjórnarfundi og að hann yrði ræddur á þeim næsta. Hún sagði líka að menntamálaráðherra þyrfti að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.

Benti hún hins vegar á að Hafdís hefði ekki verið í hópi þeirra sem voru metin hæfust af hæfisnefnd og það kallaði á það að menntamálaráðherra skoðaði málatilbúnað og hvort rétt hefði verið að honum staðið.

Þá setti forsætisráðherra spurningarmerki við það hvort að stjórnvöld væru að nýta úrskurði kærunefndarinnar nægilega til leiðsagnar og sagðist telja að hægt væri að fækka slíkum brotum og gera betur í þessum málum.

 „Þetta gengur ekki lengur svona“

Páll var varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogi á árunum 1990 til 1998 og varaþingmaður flokksins frá árinu 1999 til 2007. Þá var hann aðstoðarmaður tveggja ráðherra úr röðum Framsóknarflokksins. Bróðir Páls er Árni Magnússon fyrrum félagsmálaráðherra fyrir Framsóknarflokkinn.

Hafdís er skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og fyrrum forstöðumaður nefndarsviðs Alþingis. Hún óskaði eftir rökstuðningi fyrir skipuninni í nóvember sem og gögnum málsins.

Rökstuðninginn fékk hún en var neitað um gögnin á þeim grundvelli að einkahagsmunir annarra væru ríkari en hagsmunir hennar. Helga gerði athugasemdir við þá ákvörðun og þurfti að ítreka þær athugasemdir þrívegis áður en ákvörðunin var endurskoðuð og hún fékk aðgang að gögnunum í janúar.

Hanna Katrín fór yfir þessa ákvörðun í ræðustól Alþingis og sagði það vera „algjörlega galið“ og spurði hvaða hagsmuna væri verið að gæta með ákvörðuninni. „Þetta gengur ekki lengur svona,“ bætti hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert