Vill þögn í heiminum

Þór Jakobsson fræðir þátttakendur í sólstöðugöngu 21. júní 2008. Hann …
Þór Jakobsson fræðir þátttakendur í sólstöðugöngu 21. júní 2008. Hann heldur stutta tölu annað kvöld. Ljósmynd/Jórunn Rothenborg

Svonefndur sólstöðuhópur undir stjórn Þórs Jakobssonar veðurfræðings hefur árlega á sumarsólstöðum frá 1985 staðið fyrir sólstöðugöngu og tíunda árið í röð verður hún í Viðey í samstarfi við Borgarsögusafn Reykjavíkur í kvöld. 

„Við byrjuðum á þessu nokkrir kunningjar,“ rifjar Þór upp, en fyrsta gangan var frá Almannagjá á Þingvöllum að Kjarvalsstöðum í Reykjavík. Síðan tóku við göngur víða á höfuðborgarsvæðinu og áður en byrjað var að ganga í Viðey var genginn hringur í Öskjuhlíð í áratug. „Fyrsta gangan tók um sólarhring en síðan hefur þetta færst yfir í létta kvöldgöngu við allra hæfi.“

Þór segist hafa haft góðan stuðning af Einari Egilssyni, þar til hann féll frá, en Guðlaugur Leósson og Halldór Kristinn Petersen hafi líka verið í framvarðarsveitinni frá byrjun. „Við kölluðum þetta meðmælagöngu með lífinu og menningunni strax í byrjun og tilgangurinn hefur verið sá sami síðan; dagur sem fólk hvílist frá deiluefnum og gleðst yfir því að vera til,“ segir Þór og leggur áherslu á að sólstöðugangan sé gleðistund.

Allt að 150 manns á öllum aldri hafa tekið þátt í göngunni en Þór segir að veðrið hafi gjarnan áhrif á fjöldann. „Við höfum verið frá 30 og upp í 120 í Viðey, en fyrir margt löngu voru um 150 manns í göngu um Seltjarnarnes og víðar enda skínandi gott veður þá,“ segir veðurfræðingurinn. Hann leggur áherslu á að fólk klæði sig eftir veðri og taki með sér nesti ef vill.

Allir sameinist í þögn

Í kvöld verður siglt frá Skarfabakka kl. 20:00 og til baka ekki síðar en kl. 23:00. Frítt er fyrir sex ára og yngri og handhafa gestakortsins. Árný Helgadóttir hjúkrunarfræðingur stjórnar upphitun fyrir gönguna. Gengið verður umhverfis Kvennagönguhól, umhverfi hans skoðað og sögur sagðar af staðnum. Ágústa Rós Árnadóttir, verkefnisstjóri viðburða hjá Borgarsögusafninu, skipuleggur gönguna en auk hennar koma Guðmundur Hermann Guðmundsson, viðburðastjóri í Viðey, og Guðbrandur Benediktsson safnstjóri að málum. Á völdum stað flytur gestur sólstöðuhátíðarinnar, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ávarp. Síðar, rétt fyrir „sólstöðumínútuna“, greinir Þór frá tilgangi sólstöðugöngunnar.

Á norðurhveli jarðar er sólin hæst á lofti um 21. júní og lægst um 21. desember. Þá eru sumar- og vetrarsólstöður. Andartakið þegar daginn hættir að lengja og styttist í vetrarsólstöður er kallað „sólstöðumínútan“ og í ár verður hún klukkan 21:44 annað kvöld, samkvæmt útreikningum stjörnufræðinga. „Þá stöldrum við við, höfum mínútuþögn og hugsum eitthvað hver fyrir sig,“ segir Þór.

Draumur Þórs hefur lengi verið að þögn verði í heiminum á „sólstöðumínútunni“. „Þetta er alls staðar sama mínútan þannig að mig dreymir um að koma þessari þögn á víða um heim,“ segir hann. Í því sambandi bendir hann á að hann hafi verið í sambandi við samtökin The Planetary Society, alþjóðleg samtök um stjörnufræði, með næsta ár í huga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert