Lögreglan á eftir jeppaköllum

Bureko er tékkneskt bílafyrirtæki.
Bureko er tékkneskt bílafyrirtæki. Ljósmynd/Bureko CZ

Lögreglan á Hvolsvelli er á eftir hópi erlendra ökumanna sem kom til landsins með Norrænu á dögunum og hefur varið síðustu dögum í að keyra um landið á stórum jeppum, sums staðar að því er virðist utanvegar á ólöglegum svæðum.

„Þetta eru menn með drullutjakka aftan á bílunum og járnplötur og slíkt, þannig að þeir ætla sér í torfærur. Það virtist standa á einhverjum bílnum Iceland Off-road 2020, en ég veit ekki alveg hvað þeir kalla off-road,“ segir Fjölnir Sæmundsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Hvolsvelli, í samtali við mbl.is. 

Vísir greindi fyrst frá málinu.

„Við erum allavega að reyna að staðsetja þá og reyna að tala við þá. Þeir eru að fara frá austri til vesturs, en hljóta að enda á að fara aftur austur og heim á endanum, þannig að þeir fara ekkert framhjá okkur,“ segir Fjölnir.

Hópurinn hefur verið duglegur að birta myndir og myndbönd þessu athæfi, sem getur varðað við lög. Sektir liggja við því ef gróðurskemmdir verða. Óljóst er þó hvort slíkt hafi gerst hér, en Fjölnir segir brýnt að komast í samband við ökumennina strax til þess að gera þeim ljóst hvað má og hvað má ekki.

Leið þeirra hefur legið framhjá Ingólfshöfða á einhverjum tímapunkti, inn að Þórsmörk, upp á Fjallabak, og víðar á þessum slóðum. 

Sagan endurtekur sig, því síðasta sumar var það sama uppi á teningnum hjá Rússanum Alexander Tikhomirov sem olli talsverðu tjóni með utanvegaakstri við Mývatn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert