„Þetta er okkar styrjöld“

„Ég set bara mikið spurningamerki við að fólk sem er …
„Ég set bara mikið spurningamerki við að fólk sem er í ráðgjöf varðandi þessi mál núna og er mikið að vitna til fordæmalausra tíma taki síðan [mið af rannsóknum] í sinni hagstjórnarráðgjöf sem taki ekki mið af fordæmalausum aðstæðum, “ sagði Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka. mbl.is/Árni Sæberg

Aðalhagfræðingur Kviku banka segir að tímabundin hækkun grunnatvinnuleysisbóta sé ekki letjandi fyrir atvinnuleitendur og ætti slík hækkun í raun að hafa jákvæð áhrif á hagkerfið. Margföldunaráhrif þess að láta fólk hafa pening séu gífurleg. 

„Þetta er okkar styrjöld sem við lentum ekki í 1940,“ sagði hagfræðingurinn, Kristrún Frostadóttir, um kórónuveirufaraldurinn í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun. 

Þar sagði Kristrún að hátt í 30.000 manns hefðu nú orðið fyrir 25-30% kjaraskerðingu vegna atvinnumissis í niðursveiflunni, sama hvort hann væri algjör eða að hluta.

Taki ekki mið af fordæmalausum aðstæðum

Hún bendir á að margar af þeim rannsóknum sem nú er vísað til í þeim tilgangi að rökstyðja það að hærri atvinnuleysisbætur hafi letjandi áhrif á atvinnuleit og dragi úr sköpun starfa séu gerðar yfir langan tíma, 20-30 ár, og góðar og gildar í því samhengi, ekki í tímabundinni niðursveiflu eins og heimsbyggðin glímir nú við vegna faraldurs kórónuveiru. 

Þessar rannsóknir skoða það hvernig fólk hagar sér undir eðlilegum kringumstæðum. 

„Ég set bara mikið spurningarmerki við að fólk sem er í ráðgjöf varðandi þessi mál núna og er mikið að vitna til fordæmalausra tíma taki síðan [mið af rannsóknum] í sinni hagstjórnarráðgjöf sem taki ekki mið af fordæmalausum aðstæðum.“

Brúarlán dauðadæmd frá upphafi

Kristrún sagði að fólk hefði áhyggjur af því að ekki væri hægt að lækka grunnbætur aftur ef þær væru hækkaðar. Það væri þó vel hægt að koma á tímabundnum aukagreiðslum til atvinnulausra. „Ef vilji er fyrir verkið þá er leið til þess að díla við það,“ sagði Kristrún. 

Í þættinum ræddi Kristrún einnig um brúarlán sem hún sagði að hefðu verið dauðadæmd frá upphafi. Fyrirtæki vantaði fjármagn í dag vegna þess að þau hefðu lent í tekjutapi og það gengi ekki upp að skuldsetja sig fyrir tekjutapi. 

„Það hefur algjörlega sýnt sig núna að það skiptir engu máli hvað peningastefnan gerir ef fólk hefur ekki áhuga á að taka lán og sér ekki út vegna óvissu.“

Kristrún sagði að það væri algjörlega eðlilegt að stjórnvöld legðust í aukin útgjöld þrátt fyrir að það ylli halla á ríkissjóði. Hún sagði ekki eðlilegt að reka hið opinbera með halla í mörg ár undir venjulegum kringumstæðum en um tímabundið áfall væri að ræða og því þyrfti að bregðast við. „Þetta er bara eins og að lenda í seinni heimstyrjöldinni,“ sagði Kristrún. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka