Styður aðgerðirnar heilshugar

Már Kristjáns­son, yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­deild­ar Land­spít­al­ans.
Már Kristjáns­son, yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­deild­ar Land­spít­al­ans. Ljósmynd/Lögreglan

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, segir ljóst að þær aðgerðir sem gripið var til á landamærum 19. ágúst síðastliðinn séu að skila árangri. 

Í samtali við mbl.is segir Már að ef afstaða fólks sé sú að takmarka þurfi útbreiðslu smits í samfélaginu beri aðgerðirnar sem gripið var til 19. ágúst, og hafa verið gagnrýndar meðal annars af ferðaþjónustunni, árangur. 

„Þessar aðgerðir eru að bera árangur þegar kemur að því að draga úr útbreiðslu smits í þessari bylgju. Við höfum engin gögn sem benda til þess að veiran hafi veiklast eða sé eitthvað minna skæð en í vetur. Þvert á móti er bara sama hlutfall innilagðra á gjörgæslu og var í fyrri bylgjunni og þetta eru bara gríðarlega þung veikindi fyrir marga sem lenda í þessu. Hér var í þessum faraldri til dæmis bara ungur maður sem lá á gjörgæslu hætt kominn,“ segir Már.

„Það getur ekki verið að fólki finnist það bara í lagi að fólk leggist inn á spítala. Ef það er afstaða fólks eru þessar aðgerðir náttúrlega íþyngjandi, en þær eru gagnlegar með tilliti til heilsuverndandi sjónarmiða og ég styð þær heilshugar,“ segir Már. 

Dropi í hafið 

Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla, skrifaði á laugardag grein í Morgunblaðið þar sem hann sagði stjórnvöld hér á landi hafa seilst of langt í aðgerðum sínum gegn kórónuveirunni að undanförnu. Þá sagði Jón að það gæti ef til vill raungerst á næstu mánuðum í Bandaríkjunum að veiran færi að eiga erfiðara um vik að breiðast út. 

„Menn hafa talað um að það þurfi að vera kannski svona 50 til 60% sem smitast til að það fari að þrengja verulega að kostum veirunnar. Ef þú ert með sex milljónir tilfella í Bandaríkjunum, í samfélagi sem er 330 milljónir, erum við að tala um að það séu kannski 2-3% sem hafa smitast. Þá er dálítið langt í land til að það myndist nægilegt hjarðónæmi til að hindra útbreiðslu sýkingarinnar. Þetta á við um allt mannkynið, það eru um 25 milljónir staðfestra smita á heimsvísu af yfir sjö milljörðum. Það er bara dropi í hafið,“ segir Már, spurður út í þann möguleika að nægjanlegt hjarðónæmi myndist í Bandaríkjunum til að hefta útbreiðslu veirunnar.

„Það getur verið að á ákveðnum stöðum í Bandaríkjunum sé hlutfall sýktra hærra. En það er ennþá að því er virðist mikill hraði á útbreiðslu í Bandaríkjunum og þegar maður horfir á heildina eru þetta fá tilfelli í hinu stóra tölulega samhengi. Hins vegar ef við förum út í stórfelldar bólusetningar getur þetta snarbreyst,“ segir Már, sem bendir jafnframt á að samdráttur í þjóðarbúskap Bandaríkjanna hefur verið meiri en á Íslandi samkvæmt upplýsingum sem meðal annars Morgunblaðið hefur fjallað um.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert