Þórdís: Vindorkan væntanlega betri kostur

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti nýja …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti nýja langtímaorkustefnu fyrir Ísland til 2050 í Perlunni fyrir helgi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Með nýrri langtímaorkustefnu til ársins 2050 verður sjónum í auknum mæli beint að fjölbreyttari orkuframleiðslu og þar kemur vindorkuframleiðsla helst til skoðunar. Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Hún segir jafnframt að með því að framleiða meira rafmagn á Íslandi verði landið ekki minna grænt, heldur meira græn með því að framleiða raforku sem er ætlað að ná fram grænum markmiðum, svo sem um orkuskipti og jafnvel sölu á vetni t.d. á evrópskan markað.

Orkustefnan var kynnt á föstudaginn, en þar eru sett fram 12 meg­in­mark­mið í orku­stefn­unni og eru þau eft­ir­far­andi:

  • Orkuþörf sam­fé­lags er ávallt upp­fyllt
  • Innviðir eru traust­ir og áfallaþoln­ir
  • Orku­kerfið er fjöl­breytt­ara
  • Ísland er óháð jarðefna­eldsneyti; orku­skipti eru á landi, á hafi og í lofti
  • Ork­u­nýtni er bætt og sóun lág­mörkuð
  • Auðlind­a­straum­ar eru fjöl­nýtt­ir
  • Gætt er að nátt­úru­vernd við ork­u­nýt­ingu
  • Um­hverf­isáhrif eru lág­mörkuð
  • Nýt­ing orku­auðlinda er sjálf­bær
  • Þjóðin nýt­ur ávinn­ings af orku­auðlind­un­um
  • Orku­markaður er virk­ur og sam­keppn­is­hæf­ur
  • Jafnt aðgengi að orku er um allt landið

Horft til vindorku út frá markmiðum orkustefnunnar

Í samtali við mbl.is segir Þórdís að þriðja markmiðið, um að orkukerfið eigi að vera fjölbreyttara, þýði aukna fjölbreytni í orkuvinnslu. „Ekki verið að slá neitt út af borðinu, en það sem við höfum verið að vinna að er skýrari rammi utan um vindorkukosti,“ segir hún. Vísar hún jafnframt til þess að stefnan leggi út með að samhengi sé á milli samfélags og efnahags og orku og umhverfis. Það jafnvægi þurfi að finna, en stefnan segi að alltaf þurfi að uppfylla orkuþörf samfélagsins.

Segir Þórdís að þegar horft sé til núverandi valkosta til að ná til dæmis markmiðum um orkuskipti séu í boði ýmsar leiðir sem hafi mismunandi áhrif á náttúruna. Þannig sé hægt að sækja orku í auknum mæli í jarðvarma eða með að nýta land undir vatnsaflsvirkjanir. „En ég myndi ætla að við viljum horfa á fleiri kosti,“ segir Þórdís. Þar komi vindorkan sterkust inn, sé hægt að komast hjá skaðlegum áhrifum á fuglalíf og of mikilli sjónmengun. „Þessi stefna hjálpar okkur að taka ákvörðun um að væntanlega er vindorkan betri kostur til að ná þeim markmiðum sem hér eru sett fram,“ segir hún.

Á Íslandi eru þegar til staðar nokkrar vindmyllur sem framleiða …
Á Íslandi eru þegar til staðar nokkrar vindmyllur sem framleiða rafmagn, meðal annars þessar vindmyllur í nágrenni Búrfellsstöðvar. mbl.is/Árni Sæberg

Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti á 30 árum

Fjórða markmiðið er að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti á tímabilinu, eða fyrir árið 2050 og að orkuskipti verði komin á landi, á hafi og í lofti. Þórdís segir að þarna muni aðrir tímarammar þó vera stórt atriði líka. Þannig ætli Ísland sér að verða kolefnishlutlaust fyrir árið 2040 og þó að orkuskipti á landi séu komin á ágæta ferð og séu farin af stað á hafi, þá séu orkuskipti í lofti enn óleyst vandamál. „Það er verkefni sem ekki er búið að leysa en er verkefni á fleygiferð. Ef það er hægt að leysa það með raunhæfum leiðum ætlum við okkur að gera Ísland óháð jarðefnaeldsneyti í lofti líka.“

Hefur ekki bein áhrif á rammaáætlun

Þegar kemur að raforkuframleiðslu hefur umræðan um náttúruvernd verið umfangsmikil, en ákvörðunarferli um virkjanakosti liggi nú í rammaáætlun. Tvö af markmiðunum eru að gæta skuli að náttúruvernd og að umhverfisáhrif skuli lágmörkuð. Þýðir þetta að fleiri kostir fari annaðhvort í bið- eða verndarflokk? Þórdís segir að rammaáætlunin sé ekki hluti af orkustefnunni. Hún sé tekin til umfjöllunar í þinginu og þar sé ákveðið í hvaða flokka virkjanakostir fari. „En við hörfum lært mikið undanfarna áratugi í að gæta að orkunýtingu og lágmarka umhverfisáhrif, bæði í framkvæmdum og öðru slíku. Þetta eru auðvitað ótrúlega mikilvæg markmið, en svo er spurning hvernig það spilar inn í þá kosti sem eru í nýtingu og bil, en þá eru menn með þetta til hliðsjónar.“

Sæstrengur ekki hluti af orkuáætlun

Þegar kemur að umhverfismálum segir Þórdís að stóru áskoranirnar séu engu að síður í loftslagsmálum og þar þurfi að huga vel að nýtingu. Segir hún að meiri orkuframleiðsla hér á landi þýði ekki að Ísland verði minna grænt land heldur verði Ísland meira grænt með því að framleiða meiri raforku til að ná fram grænum markmiðum. Vísar hún þar til t.d. orkuskipta eða framleiðslu á raforku fyrir aðra markaði, t.d. með vetni. Segir hún að þannig væri hægt að aðstoða t.d. evrópska markaði til að draga úr gasnotkun.

Stefnt er að sjálfbærri orkuframtíð í orkustefnu fyrir Ísland til …
Stefnt er að sjálfbærri orkuframtíð í orkustefnu fyrir Ísland til 2050.

Varðandi sölu á raforku úr landi hefur sæstrengur til Evrópu ítrekað komið í umræðuna. Þórdís segir að hann rati þó ekkert inn í orkustefnuna, enda sé hún ekki atvinnustefna og þar sé ekki tekin ákvörðun um ákveðnar framkvæmdir eða hvernig eigi að nýta raforkuna.

Þrífasa rafmagn óháð staðsetningu

Lokamarkmiðið á listanum sem fylgir orkustefnunni er um jafnt aðgengi að orku um allt land. Þegar er í gangi vinna við að leggja þrífasa rafmagn um allt land. Núverandi markmið er að það takist fyrir árið 2035, en í fjármálaáætlun sem lögð hefur verið fram til 2025 er lagt til að 500 milljónir verði notaðar til að flýta fyrir jarðstrengjavæðingu og þrífösun dreifikerfis raforku. Samkvæmt þeim áætlunum á jarðstrengjavæðing að vera unnin þrefalt hraðar, en það myndi þýða að verkið ætti að klárast á 5 árum í stað 15.

Þórdís segir mjög mikilvægt að ná þessu markmiði. „Fólk hvar sem það býr á að hafa aðgang að þessari auðlind og geta farið í atvinnuuppbyggingu. Það á ekki að skipta máli hvar á landinu þú býrð, hvort þú getir stofnað fyrirtæki sem kallar á lágmarksorku,“ segir hún og bætir við að hún vonist til að þetta verkefni klárist á ekki allt of mörgum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert