Kennarar upplifa sig ekki alls staðar örugga

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands.
Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Kennarastéttin hefur mjög takmörkuð tækifæri til þess að efla sínar persónulegu varnir gagnvart Covid-19, sérstaklega hvað varðar skólastarf með ungum börnum, að sögn formanns Kennarasambands Íslands. Misjafnt er á milli skóla hversu vel er gætt að velferð kennara. Formaðurinn segir það mikla áskorun að halda uppi skólastarfi og gæta ýtrustu sóttvarna á sama tíma.

Spurður hvort velferð kennara og nemenda þeirra sé tryggð innan skólanna í þessari þriðju bylgju faraldursins segir Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands:

„Það er álitamál. Við vitum að sums staðar er þetta til mikillar fyrirmyndar en svo heyrum við að svo sé ekki alls staðar. Það snýr þá oft að skipulagi, það sé meiri blöndun en æskilegt geti talist, það sé verið að boða staðfundi þar sem fólk hittist í hópum og svona, svo við höfum áhyggjur af þessu.“

Kennarasambandið, í samstarfi við menntamálaráðuneytið, undirbýr nú könnun sem verður send til starfsmanna á öllum skólastigum. Þar verður spurt um starfsaðstæður á tímum Covid-19.

„Með henni viljum við kortleggja hvernig þetta er og fá lýsingu skólafólks á stöðunni og ástandinu í þeirri von að það verði hægt að bregðast við og laga það sem þarf þar sem lagfæringar er þörf,“ segir Ragnar.

Framhaldsskólanemendur klæðast nú margir hverjir grímum og stunda fjarnám.
Framhaldsskólanemendur klæðast nú margir hverjir grímum og stunda fjarnám. mbl.is/Kristinn Magnússon

Varnarbúnaður og grímur ekki í myndinni

Aðgerðir sem heilbrigðisráðherra hefur samþykkt, bæði á landsvísu og á höfuðborgarsvæðinu þar sem aðgerðirnar eru harðari, til að sporna við útbreiðslu Covid-19, eiga ekki við um börn sem eru fædd árið 2005 og síðar, þ.e.a.s. þá eru grunn- og leikskólabörn undanskilin aðgerðunum. Fjarlægðartakmörk eru á meðal þess sem er innifalið í aðgerðum.

Ragnar segir misraunhæft að halda tveggja metra reglu innan skólanna, sérstaklega hvað varðar yngri nemendur.

„Þar sem það er kannski óraunhæfast að viðhafa slíkar varnir þar sem unnið er með ungum börnum kemur ekki til álita að menn séu kappklæddir í einhvern varnarbúnað með grímu. Það er kannski munurinn á kennarastéttinni og öðrum framlínustéttum að kennarastéttin hefur mjög takmörkuð tækifæri til að efla sínar persónulegu varnir. Eðlilega hafa menn áhyggjur af því. Þá kannski fyrst og fremst þegar skipulag eða aðstæður gera kröfu um meiri nánd en mönnum þykir þægileg,“ segir Ragnar.

„Svo heyrum við um leið af fjölda skóla og sveitarfélaga þar sem er verið að gera þetta mjög vel og fólk upplifir sig öruggt en það er ekki alls staðar og þess vegna þarf að hjálpa þeim sem hjálpar eru þörf í því að tryggja öryggi allra.“

„Þetta er ofboðsleg áskorun. Ekki bara fyrir okkur hér á …
„Þetta er ofboðsleg áskorun. Ekki bara fyrir okkur hér á landi heldur um heim allan vegna þess að bara einföld aðgerð eins og það að fara með hluta náms í fjarnám skapar strax aðstöðumun,“ segir Ragnar. mbl.is/Hari

Valdið hjá sóttvarnalækni

Í fyrstu bylgju faraldursins giltu fjarlægðartakmörk líka um börn. Þá var meira um fjarnám á grunnskólastigi en nú. Spurður hvort ekki hafi komið til tals að koma slíkri tilhögun aftur á segir Ragnar:

„Sóttvarnalæknir tekur ákvörðun um það hvort fjarlægðatakmarkanir gildi um börn og unglinga. Hann fullyrðir að tilgáta hans frá því í vor, þegar hann aflétti þessu gagnvart nemendum, hafi styrkst. Valdið er hjá honum varðandi það og fátt sem skólar geta gert á hverjum tíma annað en að fara að tilmælum sóttvarnalæknis eins vel og hægt er.“

Það er væntanlega vandrataður stígur að halda uppi þessari mikilvægu grunnþjónustu og á sama tíma halda smitunum frá skólakerfinu?

„Já. Þetta er ofboðsleg áskorun. Ekki bara fyrir okkur hér á landi heldur um heim allan vegna þess að bara einföld aðgerð eins og það að fara með hluta náms í fjarnám skapar strax aðstöðumun. Við eigum nú þegar rannsóknir sem sýna það að jöfnuður í menntakerfinu okkar, sem hefur verið eitt af okkar stóru afrekum, er í dálítilli hættu. Þeir hópar sem voru líklegastir til að hverfa út úr menntakerfinu í vor voru annars vegar nemendur af erlendum uppruna og hins vegar nemendur með veika félagslega stöðu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert