Spyr hvort Brynjar eigi erfitt með að skilja tölur

Ragnar Freyr Ingvarsson læknir.
Ragnar Freyr Ingvarsson læknir.

Ragnar Freyr Ingvarsson, umsjónarmaður Covid-göngudeildar á Landspítalanum, gagnrýnir ummæli Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um viðbrögð við kórónuveirunni og spyr hvort Brynjar eigi erfitt með að skilja tölur og margfeldni þeirra.

Brynjar sagðist í samtali við mbl.is fyrr í dag vera mótfallinn viðamiklum aðgerðum til að stöðva útbreiðslu veirunnar. Hann spurði sig hvort allt fari „á hliðina þó að við lokum ekki öllu og göngum ekki svona langt“.

Ragnar Freyr segir á facebooksíðu sinni að ef allt verði gefið frjálst muni fórnarlömb faraldurs í mikilli uppsveiflu margfaldast. „Ef tíu sinnum fleiri myndu veikjast myndum við að minnsta kosti uppskera rúmlega 1150 innlagnir, 260 á gjörgæslu og 100 myndu deyja,“ skrifar hann og bætir við að þá væru ennþá tæplega 90% Íslendinga næmir fyrir veirunni.

„Fyrir hverja 1000 smitaða fáum við um 32 innlagnir, 7 á gjörgæslu og 3 deyja. Að minnsta kosti. Í þessari bylgju hafa um 1000 smitast, 24 eru á sjúkrahúsi, 4 á gjörgæslu og sem betur fer hefur engin dáið,“ bætir hann við.

„Og þetta eru ekki bara einhverjir einhverjir. Þetta eru afar okkar og ömmur, pabbar og mömmur. Vinir, vandamenn og ástvinir! Þetta gæti meira segja verið Brynjar sjálfur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert