Sóttvarnir í skólum stórt verkefni

Mikil vinna fer nú fram í grunnskólum landsins við að útfæra þær kröfur um sóttvarnir sem nú eru í gildi á yngri skólastigum. Í Seljaskóla stunda 650 börn nám og þar hefur mikil vinna farið í að útfæra hólfaskiptingu í húsnæði sem er krefjandi að sögn Magnúsar Þórs Jónssonar, skólastjóra. Almennt segir hann foreldra sýna skilning á þeim aðgerðum sem verið sé að grípa til.

Virkja börnin í þátttöku

Áherslurnar séu nú orðnar ólíkar þeim sem voru fyrr á árinu. Þá var litið á verkefnið til skamms tíma en nú sé orðið ljóst að um langhlaup sé að ræða. „Nú höfum við verið að leggja áherslu á það við krakkana, og munum líka gera það við foreldrana, að þau verði virkari þátttakendur og að þau læri inn á þessi kerfi. Því þau eru nú í því hæfniviðmiði að læra að lifa í heimsfaraldri Covid-19,“ segir Magnús í samtali við mbl.is en rætt er við hann í myndskeiðinu hér að ofan.

Ljóst er að starfsfólk grunnskóla um allt land þarf að leggja talsverða vinnu á sig þessa dagana til að halda skólastarfinu gangandi og sumstaðar þarf að grípa til þess að stytta skóladaginn að einhverju leyti á meðan aðlögunin fer fram. Það er tilfellið í Seljaskóla en Magnús segir að þrátt fyrir að ýmis sjónarmið séu uppi um hvernig verið sé að takast á við veiruna sé skilningur á því að mikilvægt sé að halda skólastarfi gangandi. „Mér finnst fólkið og foreldrar sem ég er að tala við alveg ótrúlega sveigjanlegt við þessar aðstæður.“    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert