Hárgreiðslustofur opna en áfram 10 manna bann

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrjár breytingar verða gerðar á sóttvarnareglum hérlendis með nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra. Hún mun gilda frá 18. nóvember næstkomandi og til annars desember. 10 manna samkomubann verður áfram í gildi.

Hárgreiðslustofum verður heimilt að opna, sem og rakarastofum og nuddustofum, íþróttir barna með og án snertingar verða heimilaðar og takmörk í framhaldsskólum verða rýmkuð, að sögn Svandísar Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sem vill sjá faraldurinn fara enn neðar. 

„Það voru þrjár meginbreytingar. Í fyrsta lagi erum við að heimila það sem er kallað einyrkjastarfsemi, starfsemi rakara, hárgreiðslustofa, nuddara og svo framvegis, með grímum auðvitað og hámark 10 manns í rýminu. Í öðru lagi verða íþróttir barna og ungmenna, með eða án snertingar heimilaðar. Í þriðja lagi verður 25 manna hámark í hverju rými í framhaldsskólum, það var áður bara á fyrsta ári,“ segir Svandís. 

Ekki tekin ákvörðun um landamærin

Áfram verður þó tveggja metra regla í framhaldsskólunum en grímuskylda ef ekki er hægt að uppfylla hana. Svandís segir að breytingin innan framhaldsskólanna sé gerð til þess að liðka fyrir frekara staðnámi í framhaldsskólunum.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafði lagt til að tvöföld skimun við komuna til landsins yrði gerð að skyldu en nú er þeim sem hingað til lands koma gefið val um 14 daga sóttkví. Svandís sagði aðspurð að sú umræða hefði ekki verið kláruð á ríkisstjórnarfundi dagsins en ákvörðun yrði tekin á næstu dögum. 

„Við erum að sýna með þessu að tilefni sé til að slaka aðeins á en alls ekki of mikið vegna þess að við verðum að ná undirtökum og stjórn á faraldrinum. Það er gríðarlega mikilvægt.“

Hvað varðar málefni bóluefnis þá var minnisblaði dreift um stöðuna á samningum. Þá var einnig tekin umræða um vottorð sem gætu gilt á milli landa. 

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert