Fyrstu íbúarnir snúa aftur heim

Þórir Magni og Jóhanna Pálsdóttir, Seyðfirðingar. Jóhanna segir að jólin …
Þórir Magni og Jóhanna Pálsdóttir, Seyðfirðingar. Jóhanna segir að jólin skipti litlu máli þegar upp er staðið. Mestu skiptir að engum hafi orðið meint af. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhanna Pálsdóttir, Þórhallur Jónsson og Þórir Magni eru á meðal fyrstu íbúanna til að snúa aftur til síns heima í Seyðisfirði, eftir að bærinn var rýmdur í kjölfar aurskriðunnar sem féll á föstudag. Viðar Guðjónsson blaðamaður mbl.is tók fjölskylduna tali, sem var að vonum ánægð að geta snúið heim fyrir jól.

„Þetta er allt eitthvað svo rosalega óraunverulegt, það er bara eins og maður hafi verið í einhverri bíómynd. Fyrst og fremst er maður svo þakklátur, mér finnst bara kraftaverk að enginn skuli hafa orðið undir. Maður er búinn að vera upp frá og tala við vini og ættingja sem hafa verið á hlaupum undan skriðunum. En þetta er náttúrulega alveg rosalegt tjón fyrir þá sem misstu sitt, það er náttúrulega hræðilegt,“ segir Jóhanna.

Voruð þið skelkuð á einhverjum tímapunkti?

„Já. Þegar stóra skriðan féll. Þá var ég inni með næstelsta syni mínum og maður hljóp bara út. Maður sá ekkert, það var svo mikil þoka þannig að maður vissi ekki hvaðan þetta var að koma.

Síðan kom dóttir okkar sem býr með kærasta sínum, þau komu og sögðu okkur hvað hafði gerst. Síðan var náttúrulega farið strax inn í Herðubreið. Það gekk ótrúlega vel, það var ótrúlegt hvað það tók stuttan tíma að rýma allan bæinn,“ segir Jóhanna.

Jólin aukaatriði þegar upp er staðið 

Fjölskyldan gisti á Hótel Valaskjálf og fékk sér að borða í fjöldahjálparstöð Rauða krossins á Egilsstöðum. Spurð hvort hamfarirnar hafi ekki sett strik í jólaundirbúninginn segir Jóhanna:

„Jólin eru bara aukaatriði einhvern veginn. Þau fóru bara á bið. Svona hlutir skipta engu máli þegar þetta allt er búið að ganga á. það er bara helst að maður sé með fólkinu sínu,“ segir Jóhanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert