Svör borgarinnar séu „eftiráskýringar“

Vigdís Hauksdóttir talar inn á myndband sem framleitt var fyrir …
Vigdís Hauksdóttir talar inn á myndband sem framleitt var fyrir aðgerðahópinn Björgum miðbænum og birtist á síðu samtakanna Opnum Laugaveginn og Skólavörðustíginn. Ljósmynd/Styrmir Kári

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, gefur lítið fyrir svör borgarinnar við myndbandi sem samtökin Opnum Laugaveginn og Skólavörðustíginn birtu á facebooksíðu sinni í desember.

Í myndbandinu, sem Vigdís talar inn á, er því haldið fram að Óðinstorg hafi verið „framkvæmd upp á 657 milljónir króna“. Í svari borgarinnar við myndbandinu í gær segir hins vegar að kostnaður við endurgerð Óðinstorgs hafi verið 60,6 milljónir króna.

„Það er bara rangt. Ég er með opinbert svar frá borginni þar sem segir að þetta verk, Óðinstorg, hafi kostað 657 milljónir með kostnaði Veitna,“ segir Vigdís við mbl.is, og vísar í svar umhverfisskipulagssviðs borgarinnar við fyrirspurn sinni.

„Þetta eru eftiráskýringar,“ segir hún.

Bílastæðakaup gagnrýnd

Í myndbandi samtakanna er því enn fremur haldið fram að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi keypt þrjú bílastæði af borginni við heimili sitt á Óðinsgötu, án útboðs. Borgin svaraði því einnig í gær, á þann veg að borgarstjóri hefði aldrei keypt bílastæði af Reykjavíkurborg, heldur hafi nágrannar hans selt honum þau.

Aðspurð segir Vigdís ekki vita hvaðan upplýsingarnar um bílastæðakaup Dags komu, og vísar á samtökin Opnum Laugaveginn og Skólavörðustíginn.

„Ég las bara þann texta sem samtökin lögðu upp með,“ segir Vigdís.

Óþekktur heimildamaður

Bolli Kristinsson kaupmaður, sem er meðlimur samtakanna og aðgerðahópsins Björgum miðbænum, var skráður í sérstökum þökkum í lok myndbandsins, og er eina nafnið sem þar kemur fram fyrir utan Vigdísi. Hann segist ekki heldur vita hvaðan upplýsingarnar um bílastæðakaup borgarstjóra koma.

„Mér var tjáð það í gegnum síma að þetta væru áreiðanlegar heimildir frá einhverjum innan borgarkerfisins sem ofbauð þetta,“ segir Bolli í samtali við mbl.is.

„Ég fékk aldrei að vita hver það var.“

Bolli Kristinsson harmar rangfærslur sem fram komu í myndbandinu.
Bolli Kristinsson harmar rangfærslur sem fram komu í myndbandinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hræddir við „ógnarstjórn í Reykjavík“

Bolli segir ástæðu þess að hans nafn hafi verið það eina sem sett var við myndbandið vera hræðslu aðgerðahópsins við hefndaraðgerðir borgarstjórnenda.

„Þeir sem eru í þessum aðgerðahópi eru kaupmenn, bareigendur, hóteleigendur o.s.frv. sem vilja ekki koma fram undir nafni, því þeir telja vera svo mikla ógnarstjórn í Reykjavík að þeir gætu misst veitingaleyfi eða að heilbrigðiseftirlitið yrði sent á þá,“ segir Bolli.

„Þeir eru bara skíthræddir, svo þeir báðu mig að setja mitt nafn við þetta og fullvissuðu mig um að þetta væri allt rétt.“

Rósagarður í stað bílastæða

Bolli segist sjá eftir því að hafa sett nafn sitt undir myndbandið vegna rangfærslunnar, en að það sem þar hafi komið fram um bílastæðin, fyrir utan að þau hafi verið keypt án útboðs, hafi verið rétt.

„Auðvitað harma ég þetta, en það er margt rétt í þessu. [Borgarstjóri] kaupir þessar lóðir til að breyta í, að hans sögn, rósagarð. Á sama tíma og hann er að taka bílastæði af nágrönnum sínum er hann að búa til einkabílastæði fyrir sjálfan sig,“ segir Bolli.

Vigdís tekur undir þetta.

„Þessi lóðaúthlutun og viðbót sem borgarstjóri fékk við sína lóð átti að vera garður, og þyrfti því ekki grenndarkynningu,“ segir hún. „Báðar skýringar borgarinnar eru því eftiráskýringar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert