Tryggja fyrst að smit berist ekki yfir landamærin

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í morgun.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í morgun. Ljósmynd/Almannavarnir

Mikilvægt er að tryggja betur að smit berist ekki yfir landamærin. Það þarf að gerast áður en hægt verður að huga að frekari tilslökunum innanlands.

Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna. Heilbrigðisráðherra er að skoða minnisblað hans og von er á niðurstöðu þaðan á næstu dögum.

Þórólfur segir það stjórnvalda að meta hvort lagaheimild sé fyrir tillögum hans. Á meðal þess sem hann fjallar um í minnisblaðinu er að krefjast neikvæðs vottorðs áður en fólk kemur til landins, laga þurfi ýmsa verkferla á landamærunum, til dæmis varðandi eftirlit og að hægt sé að sannreyna að upplýsingarnar sem fólk gefur séu réttar. Einnig sé spurning um hvort hægt sé að skylda fólk til að vera í sóttvarnahúsi.

Of snemmt að segja til um árangur

Sóttvarnaaðgerðirnar sem gripið hefur verið til hérlendis hafa skilað mjög góðum árangri. Enn er þó of snemmt að segja til um hvort aðgerðirnar sem var gripið til fyrir viku hafi skilað árangri, sagði Þórólfur.

Hann segir að vel gangi á Landspítalanum og enginn sé þar inni með virkt smit og átta séu með gömul smit.

„Það gengur vel að halda faraldrinum niðri innanlands og það er langt síðan einhver hefur greinst utan sóttkvíar,“ sagði hann og bætti við að greiningum hefði fækkað á landamærunum. Það skýrist að mestu af færri farþegum að koma til landsins. Um 1% farþega greinist að meðaltali með virkt smit.

Sex þúsund bólusettir í vikunni

Erfitt er að segja til um hversu stóran hluta þjóðarinnar verður búið að bólusetja í sumar. Allt ræðst það af þeim dreifingaráætlunum sem stjórnvöld fá frá framleiðendum. Áætlað er að bólusetja um sex þúsund manns í þessari viku, ýmist í fyrri bólusetningu eða síðari.

Þórólfur segir bóluefnaframleiðendur vera að auka framleiðslu sína og því sé hann vongóður um að við fáum bóluefni fyrr en hingað til hefur verið talað um. Um 70 þúsund skammtar séu væntanlegir í lok mars. Inni í þeirri tölu sé ekki bóluefni frá AstraZeneca sem er væntanlegt í mars.

Ekki er í boði fyrir fólk að velja hvaða bóluefni það fær. Aðspurður segir Þórólfur að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvað gerist ef fólk neitar því að fá ákveðin bóluefni. Framkvæmdin sé nógu erfið fyrir en þetta þurfi samt að taka til skoðunar.

Lokasvar frá Pfizer ekki borist

Aðspurður sagði Þórólfur að fullnaðarsvar frá lyfjaframleiðandanum Pfizer vegna mögulegrar hjarðónæmisrannsóknar hérlendis hafi ekki borist.

Áður hefur komið fram að rannsóknin muni að öllum líkindum ekki fara fram hérlendis sökum fárra smita.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert