Nýtt ákvæði muni réttlæta fjárútlát til kirkjunnar

Kirkjan við Odda á Rangárvöllum.
Kirkjan við Odda á Rangárvöllum. mbl.is/Helgi Bjarnason

Lífsskoðunarfélagið Vantrú mótmælir stefnubreytingum sem lagðar eru til á löggjöf um þjóðkirkju Íslands í frumvarpi dómsmálaráðherra sem dreift var á Alþingi í gær.

Frumvarpið snýst að mestu um lagahreinsun og að færa löggjöfina nær nútíma, einfalda framkvæmd fáhagslegs stuðnings ríkisins við þjóðkirkjuna og auka sjálfsæði hennar í fjármálum, að því er fram kemur í greinargerð frumvarpsins. 

Vantrú mótmælir því að í frumvarpinu sé að finna nýmæli sem ekki megi telja einföldun og segir félagið þau skerða sjálfstæði þjóðkirkjunnar.

Beri að halda úti vígðri þjónustu

Um er að ræða þriðju grein frumvarpsins þar sem þjónusta kirkjunnar er skilgreind en þar segir meðal annars „Þjóðkirkjunni ber að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni. Prestar og djáknar gegna vígðri þjónustu í þjóðkirkjunni“.

Forsvarsmenn Vantrúar vilja meina að ákvæðið verði notað til að réttlæta aukin fjárútlát til Þjóðkirkjunnar. 

Eigi ekki að gilda sérstök lög

„Vegna svona ákvæða er þetta því miður ekki skref í átt til aðskilnaðar ríkis og kirkju, heldur verður Þjóðkirkjan áfram trúfélag með sérstakt forréttindasamband við ríkið: ríkiskirkja,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Hjalti Rúnar Ómarsson gjaldkeri Vantrúar segir í samtali við mbl.is að í raun eigi ekki að gilda sérstök lög um þjóðkirkjuna enda eigi hún að starfa eins og önnur trúfélög á Íslandi, sjálfstætt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert