„Fólk hefur bara unnið stanslaust“

Mikið álag hefur verið á heilbrigðisstarfsfólki síðan faraldurinn fór af …
Mikið álag hefur verið á heilbrigðisstarfsfólki síðan faraldurinn fór af stað fyrir um ári síðan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjúkrunarfræðingar hafa áhyggjur af því að ná ekki að anna frekari fjölgun kórónuveirusmita í samfélaginu. Þeir eru orðnir langþreyttir og segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh), að vegna álagsins þurfi lítið til svo heilbrigðiskerfið fari á hliðina. Dæmi eru um að hjúkrunarfræðingar hafi sleppt helgarfríum þegar álagið var hvað mest og unnið allt að 16 klukkustunda langar vaktir. 

„Helstu áhyggjur hjúkrunarfræðinga eru að við náum ekki utan um þetta, eins og við gerðum núna eftir þriðju bylgju, vegna þess að það þarf ekkert svo rosalega mikið til svo að heilbrigðiskerfið fari á hliðina,“ segir Guðbjörg um fjölgun kórónuveirusmita í samfélaginu. 

Hún vonast til þess að landsmönnum takist að ná utan um þau smit sem hafa greinst því hjúkrunarfræðingar séu orðnir langþreyttir á ástandinu. 

„Það kærir sig enginn hér um fjórðu bylgjuna, hvort sem …
„Það kærir sig enginn hér um fjórðu bylgjuna, hvort sem hún er komin eða er búið að ná að stoppa hana,“ segir Guðbjörg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samræmist ekki styttingu vinnuvikunnar

Guðbjörg bendir á að stór hluti hjúkrunarfræðinga hafi unnið umfram sína vinnuskyldu þegar álagið hefur verið sem mest. 

„Það samræmist ekki því sem við erum að ganga í gegnum núna með styttingu vinnuvikunnar og í að reyna að auka aðskilnað á milli vinnu og einkalífs. Síðasta ár er búið að vera mjög þungt.“

Mikið lagt í sölurnar

Spurð hvort hjúkrunarfræðingar hafi misst af frídögum, til dæmis um helgar, vegna faraldursins segir Guðbjörg:

„Í bylgjunum hefur það verið þannig að fólk hefur bara unnið stanslaust, 12 og jafnvel 16 tíma á dag, helgar eða ekki helgar, það er bara unnið út í eitt til þess að reyna að taka bylgjuna. Það er náttúrlega þannig sem þetta hefur gengið, fólk hefur litið á þetta sem tímabundið verkefni og lagt mikið í sölurnar eins og margoft hefur komið fram og jafnvel aðskilið sig frá fjölskyldu og börnum til þess að geta staðið vaktina.“

Fíh framkvæmdi könnun á meðal hjúkrunarfræðinga sem sýndi fram á að þrátt fyrir allt hafi álagið ekki haft áhrif á það hvort hjúkrunarfræðingar geti hugsað sér að starfa innan heilbrigðiskerfisins eða ekki. 

„Við erum náttúrlega mjög ánægð með það að þeir geti hugsað sér að starfa áfram við fagið en með hverri bylgjunni sem á okkur ríður hefur maður áhyggjur af þessu vegna þess að við finnum það alveg í gegnum hverja bylgju að það eykst mjög mikið álagið á hjúkrunarfræðinga. Þeir eru að vinna heilmikla vinnu umfram sína vinnuskyldu og það hefur áhrif, við erum búin að sjá það. Þetta er ein helsta framlínustéttin og mikið sem hvílir á henni. Hjúkrunarfræðingar vilja umfram allt að við landsmenn tökum þetta verkefni saman eins og við höfum gert undanfarið, skilum okkar, stöndum okkar plikt og virðum þessar sóttvarnareglur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert