Katrín áfram vinsælasti ráðherrann

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðhera er sem fyrr vinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar og hefur hún nokkuð forskot á aðra ráðherra.

Þetta kemur fram í Þjóðarpúlsi Gallup.

Mesta breytingin frá síðustu skoðanakönnun mælist hjá Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra. Þeim sem eru ánægðir með hans störf fjölgar um 24 prósentustig. Þeim sem eru ánægðir með störf Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, fækkar aftur á móti um 12 prósentustig. Þeim sem eru ánægðir með störf Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fækkar um 11 prósentustig.

Ásmundur Einar Daðason.
Ásmundur Einar Daðason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flestir eru ánægðir með störf Katrínar, eða rúmlega 67% landsmanna, sem er aukning um átta prósentustig frá því í fyrra.

Fast á hæla hennar kemur Ásmundur Einar með rúmlega 59% en í síðustu mælingu voru tæplega 35% ánægð með störf hans. Þá var hann í níunda sæti yfir vinsælustu ráðherrana.

Nær 53% eru ánægð með störf Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og hátt í 46% með störf Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Hefur þeim fjölgað um sjö prósentustig sem eru ánægð með þeirra störf, að því er segir í tilkynningu.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tæplega 42% eru ánægð með störf Lilju Daggar og nær 41% eru ánægð með störf Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra. Hátt í fjórir af hverjum tíu eru ánægðir með störf Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og naumlega 39% ánægð með störf Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.

Ríflega 35% eru ánægð með störf Þórdísar Kolbrúnar en í fyrra voru 46% ánægð með störf hennar. Hátt í 32% eru ánægð með störf Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, en aðeins eru ríflega 11% ánægð með störf Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Kristján Þór Júlíusson.
Kristján Þór Júlíusson. mbl.is/Árni Sæberg

Kristján óvinsælastur

Flestir eru óánægðir með störf Kristjáns Þórs, eða nærri 61%. Á eftir honum kemur Bjarni Benediktsson en rúmlega 37% eru óánægð með hans störf.

Rösklega 35% eru óánægð með störf Áslaugar Örnu, hátt í 34% með störf Guðmundar Inga og nærri þrír af hverjum tíu með störf Lilju Daggar.

Rúmlega 16% eru óánægð með störf Katrínar og hátt í 13% með störf Ásmundar Einars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert