Skiptir ekki höfuðmáli hvernig veiran varð til

„Þetta er sama afbrigðið sem við höfum verið að greina …
„Þetta er sama afbrigðið sem við höfum verið að greina undanfarna daga og á rætur sínar að rekja til landamæranna í apríl,“ segir Þórólfur um smitin sem hafa greinst undanfarið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir það ekki skipta höfuðmáli sem stendur að vita hvernig kórónuveiran sem hefur hrellt heimsbyggðina í rúmt ár varð til. Frekar eigi að leggja áherslu á að takast á við faraldurinn. Þórólfur segir að ef veiran hafi orðið til á rannsóknarstofu sé mikilvægt að gæta þess í framtíðinni að veirur sem geta sloppið út séu ekki búnar til á slíkum stöðum.

Eins og mbl.is greindi frá í morgun hefur Joe Biden Bandaríkjaforseti farið fram á það við leyniþjón­ustu­skrif­stof­ur Banda­ríkj­anna að þær rann­saki uppruna kórónuveirunnar. Spurður um þetta segir Þórólfur:

„Ég held að menn geti velt vöngum endalaust yfir því hvernig þetta kom upp, hvernig veiran varð upprunalega til. Það er auðvitað áhugavert út af fyrir sig en mér finnst það ekki vera aðalmálið núna, nú erum við bara að eiga við þessa veiru. Í mínum huga skiptir það ekki meginmáli hvaðan hún kom en auðvitað þarf að svara því kannski eins vel og hægt er hvernig hún varð til. Ef það var svo að hún varð til á rannsóknarstofu þarf auðvitað að gæta þess í framtíðinni að búa ekki til svona veirur sem geta sloppið út. Núna þurfum við bara að fást við veiruna eins og hún er, sama hvaðan hún kom.“

„Menn gera alls konar rannsóknir“

Er einhver ástæða til þess að halda að veiran hafi orðið til á rannsóknarstofu?

„Ég get ekki svarað því. Það geta fullt af veirum orðið til á rannsóknarstofum, menn gera alls konar rannsóknir en í þessu tilviki get ég ekki svarað því,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

Eins og Þórólfur segir er veiran enn á kreiki og helsta markmiðið að ná að hemja hana. Þrjú smit greindust innanlands í gær, þar af eitt utan sóttkvíar.

„Þetta er sama afbrigðið sem við höfum verið að greina undanfarna daga og á rætur sínar að rekja til landamæranna í apríl,“ segir Þórólfur.

Er smitið í apríl þá síðasta smit sem greinst hefur og komst inn í samfélagið í gegnum landamærin?

„Ég get ekki alveg sagt til um það en það er greinilegt að þetta afbrigði er búið að vera í gangi í smá tíma.“

Þurfa að endurskoða reglur ef veiran fer að breiðast út

Aðspurður segir Þórólfur að skoða þurfi að herða á takmörkunum innanlands ef veiran fer að breiða úr sér.

„Ef við förum að fá einhverja mikla útbreiðslu hér innanlands og lendum í einhverjum vandræðum með það þurfum við svo sannarlega að endurskoða [núverandi sóttvarnareglur].“

Þá segir Þórólfur ekki tilefni til þess að hvetja fólk til þess að bíða með ferðalög innanlands.  

„Fólk getur ferðast en það þarf að gæta að þessum atriðum sem getið hefur verið um. Tveggja metra reglan er náttúrulega grunnurinn að þessu og það gildir áfram að ef fólk er í margmenni, sérstaklega ef það er innan um fólk sem það kannast ekki við og annað, þá er mælt með grímunotkun.“

Mótefni sem beinast að blóðflögum

Eins og mbl.is greindi frá í gær telja þýskir vísindamenn sig nú hafa leyst ráðgát­una á bak við sjald­gæfa blóðtappa sem komið hafa upp í kjöl­far bólu­setn­inga með efn­um AstraZeneca og Jans­sen. Vís­inda­menn­irn­ir telja að hægt sé að gera breyt­ing­ar á bólu­efn­un­um til að koma í veg fyr­ir blóðtappa. 

„Það virðist vera að bóluefnið setji af stað ákveðið mótefnasvar, það myndist ákveðin mótefni sem beinast að blóðflögum. Það gerir það bæði að verkum að þær mynda þessa sega og valda líka blæðingum,“ segir Þórólfur um það. Hann segist þó óviss um að mögulegt sé að breyta bóluefnunum þannig að þessar sjaldgæfu aukaverkanir komi ekki upp í neinum tilvikum.

„Hins vegar á eftir að skoða það betur hvort þessi mótefni gegn blóðflögum myndist hjá öllum sem eru bólusettir eða einungis þeim sem lenda í þessum vandamálum.“

Ólíklegt að Íslendingar þurfi öll bóluefnin sem voru keypt

Bólusetning gengur vel hér á landi en 169.570 einstaklingar hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn Covid-19. Fleiri skammtar eru á leið til landsins frá þeim fjórum bóluefnaframleiðendum sem Ísland hefur samið við og hafa fengið markaðsleyfi á Íslandi. Tvö lyfjafyrirtæki sem Ísland hefur samið við um bóluefni gegn Covid-19 hafa ekki fengið markaðsleyfi frá Lyfjastofnun Evrópu vegna Covid-19-bóluefnis. Spurður hvort útlit sé fyrir að Íslendingar þurfi bóluefni frá þessum framleiðendum sem um ræðir, Sanofi og CureVac, segir Þórólfur:

„Það er ekki víst. Það fer líka eftir því hvort það þurfi að gefa þriðju sprautuna, hvort það þurfi að bólusetja upp á nýtt ef það koma ný afbrigði og hvort einhver þessara bóluefna virka betur gegn þessum nýju afbrigðum en önnur, það er ýmislegt sem þarf að skoða. Mér finnst líklegast að við munum ekki þurfa öll þessi bóluefni sem við erum búin að festa kaup á.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert