Veðrið kom aftan að veðurfræðingum

Vindur í Reykjavík í gær gaf tilefni til gulrar viðvörunar. …
Vindur í Reykjavík í gær gaf tilefni til gulrar viðvörunar. Björgunarsveitir fóru í fimmtíu útköll. mbl.is/Árni Sæberg

Heldur hvassara var á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi en gert hafði verið ráð fyrir, og hefði í raun verið tilefni til að gefa út gula viðvörun fyrir svæðið. Þetta segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur á Veðurstofunni, í samtali við mbl.is.

Gul viðvörun hafði verið gefin út fyrir sunnanvert landið og miðhálendið, en þó ekki höfuðborgarsvæðið.

Veðrið náði hámarki upp úr kvöldmatarleyti og fram til miðnættis, og var það verst á Reykjanesi og austan við borgina við Hólmsheiði. Mestur vindur mældist á gosslóðum við Fagradalsfjall, þar sem vindhraði náði mest 31 metra á sekúndu en þá er miðað við tíu mínútna meðaltal. Í hviðum fór vindhraði upp í 40 metra á sekúndu.

„Þessi stöð er farin að keppa við stöðina í Skálafelli,“ segir Birgir og vísar þar til „keppninnar“ um mestu rokrassgöt landsins. Stöðin var sett upp eftir að gosið hófst í Geldingadölum.

Austan við höfuðborgina fór vindur yfir 25 metra á sekúndu, og fast að 40 metrum í hviðum.

Tugir verkefna hjá björgunarsveitum

Mikið mæddi á björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu og í Árnessýslu í gærkvöldi. Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, fóru björgunarsveitarmenn í um 50 útköll á höfuðborgarsvæðinu, flest milli klukkan 18 og 23. Flestum verkefnum var þó lokið upp úr miðnætti.

Helst stendur upp úr, að sögn Davíðs, sá fjöldi verkefna sem sneri að felli- og hjólhýsum sem höfðu fokið til. „Þetta var algjör haustlægð, sem fólk er kannski ekki vant í lok maí þegar búið er að draga fram hjólhýsin úr geymslunni,“ segir Davíð.

Þá var nokkuð um „fasta liði“, á borð við fjúkandi garðhúsgögn, trampólín og þakplötur, einkum í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins, á Völlunum í Hafnarfirði, efri byggðum Kópavogs og Norðlingaholti.

Þá fóru björgunarsveitir í Árnessýslu í óvenjulegt verkefni þegar bjarga þurfti um tuttugu hross­um sem voru strandaglóp­ar á sand­eyri í miðri Þjórsá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert