Bólusetja 12-16 ára með undirliggjandi sjúkdóma

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Arnþór

Börnum á aldrinum 12-16 ára með undirliggjandi sjúkdóma verður boðin bólusetning við kórónuveirunni hér á landi, fyrst um sinn aðeins með bóluefni Pfizer, enda er það eina fáanlega bóluefnið með markaðsleyfi fyrir þann aldurshóp. 

Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir við mbl.is. 

Þórólfur segir jafnframt að ekkert hafi verið ákveðið um almenna bólusetningu þessa aldurshóps en hann var spurður að þessu vegna þess að á covid.is má ætla að fyrirhugað sé að einhverjir á aldrinum 0-15 ára verði bólusettir. 

Af þessu grafi að dæma mætti halda að bólusetja ætti …
Af þessu grafi að dæma mætti halda að bólusetja ætti öll börn frá aldrinum 0-15 ára. Graf/covid.is

Hjarðónæmi næst ekkert bara einn, tveir og bingó!

Frá og með gærdeginum hafa u.þ.b. 65% Íslendinga þróað með sér mótefni gegn kórónuveirunni, að því er fram kemur á covid.is: 33,5% landsmanna eru fullbólusettir, 29% hálfbólusettir og 2.2% mynduðu mótefnasvar eftir að hafa smitast af veirunni sjálfri. 

Þórólfur hefur margoft áður sagt að þröskuldur hjarðónæmis sé líklega á bilinu 60-80% og var hann því spurður hvort við Íslendingar séum hreinlega komnir fyrir horn.

„Nei, við erum það ekki. Við getum enn fengið hópsýkingar, ég meina ef að þetta er þar sem fólk býr saman og margir eru í samkrulli og kannski einn smitast og gengur laus þar lengi og nær að smita marga, þá geta allt í einu greinst mjög margir. En maður myndi allavega ekki búast við að sjá einhverja útbreiðslu svona út um allt, eins og við sáum bara fyrr í vetur.“

Þórólfur bætir svo við:

„Við vitum ekki nákvæmlega hver talan er, hver prósentan er. Prósentan er ekki bara einhver ein tala þar sem fyrir neðan hana er algjör logandi hætta og svo fyrir ofan er bara allt í góðu. Þetta er svona hægfara ferli og ég held að við séum farin að sjá núna allavega einhver nokkuð góða þokkalega hjarðónæmi, veiran nær sér ekki á strik fyrir fólki sem er bólusett og þessa vegna stoppar hún. En við verðum að bæta enn frekar í þátttökuna og bólusetja fleiri áður en við getum sagt að við séum komin í einhverja örugga höfn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert